04.09.1942
Efri deild: 23. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (704)

74. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o.fl.

Jónas Jónsson:

Ég ætla að bæta við fáeinum orðum.

Ég bjóst við, eins og kom á daginn, að hv. síðasti ræðumaður gæti ekki vænzt þess, að þetta frv. fengi afgreiðslu á þessu þingi. Það er því hægt að ræða það nánara á næsta þingi. En ég ætla að rekja aðdragandann að stofnun einkasölunnar, sem stofnuð var gegn vilja Sjálfstfl. Hún var stofnuð vegna hinna miklu gjaldeyrisvandræða.

Skilyrðið fyrir fisksölu okkar á Spáni voru þá þau, að við keyptum af þeim vörur í staðinn, sem takmarkaðist þó vitanlega af gjaldeyrisskorti.

Þá kom það fyrir, að Páll Stefánsson frá Þverá, sem annars er nýtur maður, hafði komizt að því, að til var þar í landi samsetningarverksmiðja fyrir Ford-bíla og tók nú að flytja þá inn frá Spáni með fiskflutningaskipunum, og leit svo út um tíma, eins og erfitt var um gjaldeyri, að ekki væri hægt að kaupa lífsnauðsynjar svo sem meðöl.

Þetta var ekki þegnskapur, og það var ekki hægt að verjast aðferð hans með öðru en stofnun einkasölunnar.

Þess vegna var hún stofnuð. Nú álít ég, að á fyrstu árum einkasölunnar hafi verið gerð ein skipulagsyfirsjón. Einkasalan hefði átt að verða heilsteyptari og fækka tegundum bifreiða. En það var ekki henni að kenna, heldur stj., sem lét viðgangast, að innflutningur varahluta í bíla væri í höndum annarra en einkasölunnar.

Gjaldeyrisvandræðin hafa langoftast valdið innflutningstregðu á bifreiðum í sögu einkasölunnar.

Þegar innstæður okkar urðu svo miklar í Englandi sem raun varð á, þá hömluðu miklir flutningaörðugleikar. Auk þess voru þar aðeins notaðir bílar á boðstólum, sem vafasamt var að kaupa, svo að einkasalan mun hafa hugsað sem svo, að heppilegast væri, að hver og einn keypti þá á eigin ábyrgð. En svo kom þar, að ekki fengust neinir bílar frá Englandi né Bandaríkjunum og um tíma þurfti að sækja um leyfi til sendiherra Breta hér, fyrir dollurum, hve lítið, sem var.

Á þessum tíma var sama, hvort nokkur einkasala var eða ekki. En svo losnaði um gjaldeyri frá Bandaríkjunum og flutningamöguleikarnir voru miklir.

Þá voru keyptir inn margir bílar, fyrst 250, síðar 150 nýir bílar, sem munu vera þeir síðustu. Það var ekki sízt vegna úthlutunar þessara síðustu bíla, sem nefnd var kosin til að fjalla um þau mál og koma meiri reglu á úthlutunina. En hv. 5. þm. Reykv. getur ekki dulizt, að aldrei hefur komið annað eins fyrir einkasöluna og þegar hv. fjmrh. fór að fást við úthlutunina. Hann hefur verið umsetinn eins og virki á götunni, heima hjá sér og á skrifstofunni, því að hann er í rauninni orðinn forstjóri einkasölunnar. Þetta fyrirtæki hefur því átt við margt að stríða, og þál. sú, er nú er fram borin hér í þinginu um þetta efni, er beinlinis miðuð við þetta ólag, sem hv. fjmrh. hefur komið á.

Það hefur lítið verið rætt um þetta opinberlega af velvilja til hans, því að málið hefur verið of leiðinlegt til að tala um það.

Þegar hv. þm. koma hingað eftir næstu kosningar, geta þessi bílamál verið orðin ennþá þýðingarmeiri. En hitt er eins líklegt, að þá verði málið dáið út af sjálfu sér vegna ómögulegra flutninga á bifreiðum til landsins. En til þess að segja hv. 5. þm. Reykv., við hvaða erfiðleika við þm. Framsfl. höfum átt að etja um útvegun bíla, þá skal og taka dæmi úr mínu kjördæmi. Þar eru 3 læknar, sem ég hef reynt að útvega bíla, en ekkert orðið ágengt á sama tíma og ótal strákar hér í bænum fá úthlutað bílum.

Einn þessara lækna situr á Breiðamýri. Hann er ungur og dugandi. Stundum, þegar þarf að sækja hann í Bárðardalinn, þá þarf að fá flutningabíl ofan úr Mývatnssveit til fararinnar o. s. frv. Ég hef talað um þetta við hv. fjmrh., og hann veit af því.

Nú á einkasalan 150 Cryslera í Bandaríkjunum, og nú ætla ég enn að gera pantanir fyrir þessa lækna. Það hefur komið fyrir, að aksturskostnaður hefur orðið um 200 kr., ef þurft hefur að sækja lækni úr Bárðardal til barna með lungnabólgu. Nú hefur ekki komið nýr fólksbíll til Húsavíkur í 10 ár, og héraðslæknirinn hefur engan bíl.

En eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði, þá miðar ekkert áfram í þessum málum.

Nú vil ég benda á það, að þótt einkasalan yrði lögð niður, þá verður þjóðin alltaf að hafa eitthvert eftirlit, með þessum málum. En þó að einkasalan yrði lögð niður, er eðlilegt, meðan einhverjir bílar fást, meðan samræmið milli innflutningsmöguleika og gjaldgetu er eins og það er, að þá yrði þjóðfélagið að hafa hönd í bagga, svo að það kæmi ekki fyrir, að strákar í Reykjavík séu að leika sér á bílum, sem þeir hafa ekkert með að gera, en héraðslæknir sé ekki betur settur en eins og ég hef getið um og heilt kauptún, eins og Húsavík, fái ekki einn bíl á 10 árum, og það er þetta eftirlit, sem fengi á sig alla erfiðleika einkasölunnar og stórum aukna frá því, sem nú er. Það ástand, sem hefur verið síðast liðna mánuði, hefur skapað djúptækt hatur til þeirra manna, sem hafa haft með úthlutun bifreiða að gera. Þetta hafa menn fundið réttilega. Áður var þetta hjá gjaldeyrisnefnd, en svo neitaði hún að hafa það lengur, og þá var málinu fleygt í forstjóra einkasölunnar, sem var alveg rangt, því að hann átti bara að kaupa inn bílana. Hann sá þegar, hvaða vandi honum var búinn, og hefur stöðugt farið fram á að fá nefnd til þess að úthluta bílunum, og þær hafa verið 3 eða 4 síðustu 2 árin. Í einni, sem starfaði í haust, áttu sæti Jóhann Ólafsson, bílakaupmaður,. Stefán Jónsson, skrifstofustjóri í gjaldeyrisnefnd, og forstjórinn sjálfur. Þessi nefnd vann skipulega að því að skipta þessum bílum og varð fyrir mjög lítilli rökstuddri gagnrýni, og gerði hún sér mikið far um að skipta bílunum rétt. En það, sem skaðaði þetta mál, skaðaði Sjálfstæðisfl. og skaðaði landið, var það, að ráðherrann tók þetta að sér. Hann hefur orðið fyrir ótrúlegri gagnrýni þessa mánuði. Ég þykist vita, að hann hafi ætlað sér að vinna vel, en ég held, að hann hafi ekki athugað, hvaða erfiðleikar eru því samfara að eiga að úthluta 10 þús. kr. bílum, þegar það, að fá bíl, er það sama eins og að fá 20 þús. kr. á borðið. Ég veit um menn, sem fengu bíla og hafa selt þá aftur fyrir 20 þús. kr. Það voru aftur mistök hjá hæstv. ráðh. að ganga ekki þannig frá, að fylgzt væri með sölu bílanna. Fyrrv. ráðh. lagði til, að bílarnir væru seldir með skilyrði, þannig að einkasalan vissi um, ef þeir væru seldir. Það var óhapp, að ráðh. var ekki með þessari breyt. Það sjá allir, hvert óhapp það er fyrir ráðh. að stefna á sig öllum, sem gera kröfur um bíl, þegar hann úthlutar í sambandi við hvern bíl 10, 15 og upp í 20 þús. kr. gjöf. Þetta mundi haldast, hvaða skipulag sem væri, og ég er samdóma hv. 5. þm. Reykv. um það, að það verði að hafa allt annað lag á kaupum og úthlutun bifreiða en hefur verið, sérstaklega síðustu mánuðina.