04.09.1942
Efri deild: 23. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (705)

74. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Flm. lét þess getið í framsöguræðu sinni, að hann gerði sér fullkomlega ljóst, að þetta frv. mundi ekki ná fram að ganga á þessu þingi, og finnst mér sjálfsagt fyrir hv. d. að taka þetta til athugunar og láta flm. verða að orðum sínum í þessu efni. Ég held líka, að hverjum augum, sem litið er á starfsemi einkasölunnar undanfarið, geti varla talizt tímar til þess nú að breyta til og leggja hana niður.

1. Ég vil benda á það, að í Sþ. var alveg nýlega samþykkt þál. um, að sérstök þingkosin n. skyldi hafa með höndum úthlutun þeirra bifreiða, sem inn yrðu fluttar, og þar með fengin yfirlýsing Alþingis um það, að þessi stofnun haldi áfram.

2. Eins og hér kom fram í umr. um bifreiðaúthlutunina, eru litlar líkur til þess, að um innkaup á nýjum bifreiðum eða yfirleitt bifreiðum umfram það, sem orðið er, geti verið að ræða á næstunni. Það er fullvíst og vitað, að frá Englandi er engar bifreiðar að fá, og eftir því, sem fréttist frá Vesturheimi, er öll bifreiðaframleiðsla þar dregin saman og verið að breyta framleiðslu verksmiðjanna, sem öll er miðuð við þarfir hersins.

Í grg. þessa frv. segir flm., að þeim óánægjuröddum, sem komi fram út af störfum bifreiðaeinkasölunnar, sé bezt svarað með því að taka upp frjálsa verzlun á þessari vöru. Ég vil segja, að mig furðar á því, að jafn greindur og glöggur maður og hv. flm. er skuli láta slík orð frá sér fara nú. Honum er kunnugt um það, að um frjálsa verzlun er alls ekki að ræða og sízt á þessari vörutegund, því að æ meira og meira af öllum okkar viðskiptum við útlönd er lagt í viðjar og hömlur settar á þau og við verðum alltaf fjær því, sem hægt er að nefna frjálsa verzlun. Ég skal ekki mæla rekstri bifreiðaeinkasölunnar, stj. hennar eða yfirstj. neina bót, þar hefur að sjálfsögðu verið ýmsu mjög áfátt, en ekki er rétt að gleyma því, þegar dómar eru felldir um starfsemi einkasölunnar, hversu örðugt er að annast þessa starfsemi, svo að menn geti sæmilega við unað, þar sem ómögulegt hefði verið, með hvaða fyrirkomulagi sem var, að flytja inn í landið nokkuð svipað því af bifreiðum, sem eftirspurnin og kaupgetan er til fyrir innanlands nú á seinustu árum.

En það, sem kom mér sérstaklega til að kveðja mér hljóðs um þetta, er það, að mér virðist, að með flutningi þessa frv. sé gersamlega lokað augunum fyrir því, hvernig ástandið er. Það er fullvíst, þegar talað er um frjálsa verzlun á þessari vörutegund og öðrum vörutegundum, sem fluttar eru inn í landið, að fyrir utan allar hömlur og kvaðir, sem lagðar eru á verzlunina innanlands, eru meiri opinberar takmarkanir, sem verður að mæta, þegar keypt er utanlands, og megnið af innflutningi landsins er nú keypt fyrir beinan tilverknað opinberra stjórnarvalda. Og ég vil nota þetta tækifæri til þess að láta þá skoðun í ljós, að ég álít alveg óhjákvæmilegt að taka utanríkisverzlunina alla nú þegar til gaumgæfilegrar athugunar, og liggur mér við að segja, að menn geti orðið sammála um það, án tillits til þess, hvort menn aðhyllast svokallaða frjálsa eða félagslega verzlun. Með þeim horfum, sem eru á flutningi til landsins, og með þeim horfum, sem eru á nauðsynjum til landsins, vitandi það, að leita verður til opinberra stjórna eða stjórnarvalda með hvert einasta stykki svo að segja, sem til landsins er flutt, og vitað, að rúm í flutningaskipunum er mjög svo takmarkað og má búast við, að það verði meira takmarkað, er það bersýnilegt, að það verður að taka til gaumgæfilegrar athugunar utanríkisverzlunina alla. Ég hef frá því fyrsta, að styrjöldin hófst, verið þeirrar skoðunar, að það sjálfsagða í þessu efni væri það, að taka allan innflutning til landsins og útflutning vitanlega líka undir eina opinbera stjórn. Ég hygg, að með því ynnist:

1. að greiðara yrði að fá vörur til landsins,

2. að tryggt yrði, sem ekki er undir núverandi fyrirkomulagi, að nauðsynjar gangi fyrir hinum ónauðsynlegri vörum, bæði við innkaup og ekki síður, þegar ákveðið er, hvaða vörur skuli settar í það skiprúm, sem er á hverjum tíma,

3. að allra áhrifamesta dýrtíðarráðstöfunin væri það að taka allan innflutning til landsins undir opinbera stjórn.

Ég hygg þetta vera áhrifamestu dýrtíðarráðstöfunina af tveim ástæðum. 1. Af því að þá yrðu verðlagsákvæðin ákaflega einföld. Sú stofnun, sem annaðist innflutninginn til landsins, ákvæði um leið og vörurnar væru afhentar, hvert útsöluverðið ætti að vera, eins og Landsverzlunin gerði, svo að það væri auðvelt að fylgjast með útsöluverðinu. 2. Þessi stofnun kæmi í staðinn fyrir það verðlagseftirlitsbákn, sem við höfum nú sett upp og við verðum að játa, að er afar ófullkomið og fjarri því, að ná tilgangi sínum. 3. Ég hygg, ef menn meina það, að nauðsynlegt sé að sporna við verðbólgunni og takmarka stríðsgróðann, sé nauðsynlegt að taka innflutninginn undir opinbera stjórn. Það er vitað, að geysimikið af þeim gróða, þeim hreina stríðsgróða, fer í gegnum verzlunina, og það er kannske sá hluti stríðsgróðans, sem erfiðast er að hafa hendur á. Það er erfiðara að hafa hendur á þeim stríðsgróða en þeim, sem fæst með útflutningi með togurum og fiskiskipum.

Ég hygg því, að af öllum þessum ástæðum, bæði með tilliti til innkaupamöguleika í útlöndum, með tilliti til þess að nota sem bezt flutningamöguleika þá, sem eru á hverjum tíma, með tilliti til þess að gera verðlagseftirlitið í landinu áhrifameira og setja hömlur á dýrtíðina og með tilliti til þess að afstýra þeirri hættu, sem er á því, að stríðsgróðinn hrúgist upp hjá einstökum mönnum, sem einu sinni er ekki eftir á hægt að ná með sköttum, sé nauðsynlegt að taka allan innflutning til landsins undir eina opinbera stjórn.

Ég álít því ákaflega ótímabært að samþykkja nú að leggja niður þá einkasölu, sem hér er um að ræða, með þeim forsendum að gefa þessa verzlun frjálsa, af þeim ástæðum, sem ég hef getið um, í viðbót við það, sem ég sagði í byrjun máls míns.

Ég sé ekki ástæðu til þess að greiða atkv. með því, að málið fari til n. Það er ekki ástæða til þess, þar sem hvorki flm. né aðrir trúa á, að það nái fram að ganga, og get ég ekki annað en sýnt afstöðu mína nú strax við fyrstu umr.