19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (726)

57. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Með l. frá 1932 um samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts var ákveðið að brúa Þverá, Affall og Ála og einnig að byggja garð og hlaða fyrir Þverá þannig, að hún rynni í farveg Markarfljóts. Með þessum l. sýndi hæstv. Alþ. vinsemd og skilning á þessu máli, og ber að þakka það. Þá var einnig stígið stórt spor í samgöngumálum, ekki einungis fyrir Rangárvallasýslu, heldur fleiri héruð, með því að brúa þessi stóru og miklu vötn. Með þessum l. var ákveðið, að ríkissjóður skyldi taka að sér að greiða 7/8 hluta af þeim kostnaði, sem af fyrirhleðslu Þverár stafaði, en 3/4 hluta af öðrum varnargörðum og fyrirhleðslum, sem eru á þessu vatnasvæði. Nú hefur það komið í ljós, að kostnaðurinn við þessa fyrirhleðslu er geysimikill. Það hefur komið í ljós, að sá kostnaður, sem lagður er á sýslusjóð Rang. með þessum framkvæmdum, er mikill, og mun sýslufélaginu reynast erfitt að standa undir þeim kostnaði. Ef málið er athugað gaumgæfilega, má sjá það, að það er tæpast sanngjarnt, að sýslusjóður Rangárvallasýslu taki að sér að greiða kostnað við þessar framkvæmdir, vegna þess að þær eru ekki einungis til þess að vernda landið fyrir skemmdum, heldur einnig, og jafnvel aðallega, getur þetta talizt samgöngumál. Þegar brýr voru settar á Þverá, Affall og Ála, voru þær settar sem bráðabirgðabrýr með það fyrir augum, að þessum vatnsföllum yrði veitt í Markarfljót. Ef nú þetta fyrirtæki reyndist það kostnaðarsamt, að sýslusjóður Rangárvallasýslu reyndist þess ekki megnugur að standa undir þeim hluta kostnaðar, sem honum var ætlað, og verkið jafnvel stöðvast af þeim sökum, þá kemur að því, að ríkissjóður verður aftur að byggja brýr yfir Þverá, Affall og Ála, og fullyrði ég, að það yrði mörgum sinnum dýrara en þótt ríkissjóður bætti við sig 1/8 hluta kostnaðar, sem sýslusjóði Rangárvallasýslu er ætlað að standa straum af. Á síðustu fjárlögum var veitt til fyrirhleðslunnar 75 þús. kr., en í síðasta fjárlagafrv. er ætlazt til þess, að þetta verði 125 þús. kr. Ef árlega er unnið að þessu fyrirtæki fyrir 125 þús. kr., sem brýn þörf er á, þá verður sá skattur, sem sýslusjóður Rangárvallasýslu verður að greiða, 15–20 þús. kr., eftir því hvar unnið er. Ef ríkissjóður tæki að sér að greiða kostnaðinn af öllu verkinu, þá verður hann að bæta við sig 10–20 þús. kr. miðað við það, sem ákveðið var með l. 1932. Ég verð að segja það, að þó að þetta sé þungur baggi fyrir sýslusjóð Rangárvallasýslu, þá eru það smámunir fyrir ríkissjóð, sérstaklega þegar þess er gætt, að hér er um samgöngumál að ræða, og ríkissj. verður að byggja brýr yfir fyrrtaldar ár, ef þetta verk verður ekki framkvæmt.

Það er þess vegna von mín, að hv. alþm. líti á þetta mál með velvild og skilningi og greiði þessu frv. atkv. Ég vildi leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.