19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (734)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég álít, að það verði að gera sér þrjú atriði ljós í sambandi við þetta mál. Í fyrsta lagi það, að hafnarvinnan má ekki stöðvast, í öðru lagi, að kröfur verkamanna eru réttmætar, og í þriðja lagi, að verkamenn hafa í sínum höndum vald til þess að knýja sínar kröfur fram.

Viðvíkjandi fyrsta atriðinu, að vinna við höfnina má ekki stöðvast, ætla ég, að öllum hv. þm. muni vera ljós nauðsynin á því. Og það er vitavert ábyrgðarleysi, ef hæstv. Alþ. gerir ekkert til þess að aflétta vinnustöðvuninni. Ástæðurnar til þess, að vinnan má ekki liggja niðri, eru 3 og allar veigamiklar. Í fyrsta lagi þurfum við á því að halda, að siglingar okkar gangi svo greiðlega sem hægt er, eins og nú standa sakir, til þess að forða þjóðinni frá vöruskorti og vandræðum. Í öðru lagi er það stríðsreksturinn, sem þarf þess, að vinnan gangi sinn gang, og við Íslendingar hljótum að óska þess, að stríðsrekstur bandamanna gangi sem greiðlegast, einnig við Rvíkurhöfn, eins og nú er komið. 3. ástæðan er sú, og kannske veigamest, að við hljótum að ganga út frá því sem eðlilegum hlut, ef Íslendingar halda ekki uppi vinnu við Rvíkurhöfn, muni hún verða tekin upp af erlendum aðila, þó að honum sé það þvert um geð. Þess vegna má ekki þessi vinna stöðvast, svo að neinu nemi.

Kröfur verkamanna eru réttmætar, eins og hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sýndi fram á í ræðu sinni, og óþarfi er að endurtaka það verulega. Vil ég þó aðeins á það benda, að það, sem verkamenn eru nú að reyna að koma fram með þeim samningum, sem þeir leita eftir að fá samþykkta, er 8 tíma vinna á dag með því grunnkaupi, sem nemur 400.00 krónum á mánuði. Og allir menn vita, að þar er ekki farið fram á neitt annað en það, sem sanngjarnt og rétt er. Þetta kaup er ekki meira en það, sem fjöldinn þarf til þess að lifa af.

Þriðja og síðasta atriðið, sem ég vil drepa á, sem mér virðist, að hv. þm. hafi ekki gert sér fyllilega ljóst, er það, að verkamenn hafa nú vald til þess að knýja fram kröfur sínar, vegna þess að eftirspurnin eftir vinnuaflinu í landinu er meiri en svo, að henni verði fullnægt. Hæstv. ríkisstj. ætti a. m. k. samkvæmt eigin kenningum og kenningum þess flokks, sem hún tilheyrir, að gera sér ljóst, að hér er aðeins á ferðinni lögmálið um framboð og eftirspurn, sem leggur verkalýðnum vald í hendur, sem hann hlýtur að nota til þess að knýja fram rétt sinn.

Svo vil ég út af því, sem hv. 5. landsk. (IngJ) minntist á, hvort verkamenn mundu halda samninga þá, sem gerðir yrðu, segja það, að mér er ekki kunnugt um, að verkamenn hafi brotið þá samninga, sem þeir hafa gert við atvinnurekendur. Mér er hins vegar kunnugt um það, að verkalýðsfélög og verkamenn, sem mál þeirra bera fyrir brjósti, eru einhuga um það, að ef þeir samningar nást nú, þá verði þeir haldnir af verkamönnum til hins ýtrasta. Annað mál er, að á því hefur borið hér í bænum, að atvinnurekendur hafa sífellt komið fram með yfirboð í vinnuaflið. Það er eðlileg afleiðing af þeim miklu fjármunum, sem þeir hafa í höndum, sem þeir vilja skapa sér varanleg verðmæti með, ef þeir fá vinnuaflið til þess. Hitt er annað mál, hvort verkamenn taka slíkum yfirboðum, sem fara bak við lög og rétt.

Það þefur ekki verið þannig á málum haldið, að erfitt hafi þótt að afgreiða mál fljótt, þegar hefur átt að beita ríkisvaldinu móti verkalýðnum. Gengisl., sem fjötruðu alla launþega í landinu, voru samþ. hér á Alþ. á einni kvöldstundu. Þannig hafa verið afgreidd l. til þess að taka valdið af verkamönnum. Og þannig er einnig hægt að afgreiða mál enn, ef það þykir nauðsynlegt.

Ég skal svo víkja nokkuð að ræðu hæstv. forsrh. (ÓTh). Hann telur þetta frv. óheillavænlega fram komið og telur, að það verði ekki nægileg lausn á málinu og að það megi ekki skoðast sem ógnun í garð þeirra, sem stjórna Eimskipafélagi Íslands. Mikil er hluttekning þessa hæstv. ráðh. í garð þeirra. Öðruvísi var, þegar um það var að ræða að ógna verkalýðnum og samtökum verkamanna. Þá var ekki verið að segja sem svo, að það mætti ómögulega skoða málið sem ógnun í garð verkamanna. Þá var málunum hraðað, hnefinn settur í borðið og ekki um það hugsað, þó að það skoðaðist sem ógnun. Það er um að gera, að vilji Alþ. komi hér í ljós sem ógnun gagnvart þeim mönnum, sem stjórna Eimskipafélagi Íslands, sem stöðvuðu vinnuna við Rvíkurhöfn og enn hafa ekki skilið þá afstöðubreyt., sem orðið hefur í landinu, þ. e., að afstaðan hefur breytzt þannig, að verkalýðurinn í landinu hefur valdið í þessum málum, þó að það hafi tekizt 1939 og 1942, fyrr á árinu, að traðka á rétti verkamanna. Þetta ber hæstv. Alþ. að skilja. Og ef stjórn Eimskipafélags Íslands skilur þetta ekki, ber hæstv. Alþ. að koma henni í skilning um þetta.

Ég vil undirstrika það, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sagði, að það væri rétt og eðlilegt, að við atkvgr. við 1. umr. frv. kæmi fram, hverjir eru með málinu og hverjir á móti því. Það er rétt, að stjórn Eimskipafélags Íslands sjái, hvort Alþ. viðurkennir rétt verkamanna og hvort það vill sýna Eimskipafélagsstjórninni, að hún á að beygja sig fyrir valdi verkamanna og réttmætum kröfum. Þeir, sem eru á móti frv., ættu að greiða atkv. á móti því nú þegar, en þeir, sem eru með því, ættu sömuleiðis að greiða atkv. með því nú. Ég geri ekki ráð fyrir, að í þessu máli þurfi nema hótun eina, til þess að stjórn Eimskipafélags Íslands beygi sig, þegar hún sér vilja Alþ. í málinu. Og þess vegna þarf hann að koma fram.