19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (736)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. — Það hefði verið dálítið gaman að fá að heyra afstöðu Framsfl. til þessa máls. Það er ekki lengra síðan heldur en síðan í gærkvöldi, að þessi flokkur lýsti því yfir, að hann vildi vera með í að leysa vandamál þessarar þjóðar. Hvað leggur svo þessi framsóknarmaður til mála, þegar það liggur fyrir og er vitanlegt hv. þm., að það stendur til, að amerískt herlið taki í sínar hendur vinnu, sem við Íslendingar eigum sjálfir að vinna? Hvar eru till. þessa flokks í málinu? Ég veit, að hv. þm. mun veitast það erfitt að fá nokkuð út úr því rugli, sem hv. þm. V.-Sk. (SvbH) var með hér núna áðan, um afstöðu Framsfl. til þessa vandamáls. Ég veit ekki, hvort það er meiningin að láta hann tala hér til þess að láta ekki afstöðu flokksins koma í ljós. En ef það ætti að leita með logandi ljósi í hans ræðu um það, hver er afstaða flokksins í þessu máli, þá er hún þessi. Ef nokkuð lá á bak við ræðu hv. þm. V.-Sk. áðan, þá var það þess efnis, að Framsfl. væri flokkur, sem vel mætti treysta í því að svíkja verkalýðinn, og enn fremur, að Framsfl. væri ómissandi verkfæri í höndum milljónamæringanna í Rvík. Þetta var sú niðurstaða, sem ég komst að eftir að hafa hlustað á ræðu þessa hv. þm. Allir vita, að einu ráðin, sem Framsfl. þekkir til þess að leysa vandamálin, eru að þrælbinda verkalýðinn, enda hefur hann beitt sér fyrir því mjög rösklega, og nú, þegar á að afnema gerðaðdómslögin, þá kemur yfirlýsing frá framsóknarmönnum, sem sýnir, að þeir standa á sama stigi og í janúar í vetur, hvað þetta mál snertir. Þeir hafa hvorki gert iðrun né yfirbót, en ávíta ríkisstj. fyrir, að hún skuli hafa látið undan verkalýðnum með því að vilja afnám þessara l.

Hv. þm. V.-Sk. hliðraði sér hjá, að láta í ljós skoðun sína á þessu máli, sem hér um ræðir. Til þess að komast að því, hvað hann vill, þá þarf að rannsaka hans hjarta og nýru og umturna allri hans fortíð. Hann og aðrir framsóknarmenn þora ekki að taka afstöðu gegn milljónamæringunum, heldur halda þeir sig á gerðardómslínunni. Hann vill forðast árekstra og segist hafa andstyggð á valdbeitingu. Sá, sem stendur að valdbeitingu í þjóðfélaginu, er einmitt Framsfl., svo að þessi hv. þm. ætti að tala varlega og þakka fyrir stillingu íslenzks verkalýðs að hann skuli hafa haldið sér í skefjum eftir aðrar eins aðgerðir og hann hefur orðið að þola. Þá segir þessi hv. þm., að Sósfl. og Alþfl. fái verkalýðinn til þess að gera það, sem þjóðinni stafi hætta af. Er hættulegt fyrir þjóðina, að verkamenn fái 2 krónur um tímann eða 16 krónur fyrir 8 stunda vinnu? Ég fæ ekki skilið það. Þeim ferst ekki að tala, sem hafa margir hverjir há laun fyrir litla vinnu. Mér kæmi ekki á óvart, þó að hv. þm. V.-Sk. segði í næstu ræðu sinni, að Framsfl. mundi koma fram með miðlunartill. í þessu, svo framarlega sem meiri hl. þingsins léti kjördæmamálið niður falla.

Viðvíkjandi þeim samningum, sem gerðir voru fyrir nokkru milli atvinnurekenda og verkamanna, þá voru það atvinnurekendur, sem rufu þá samninga. Alþ. verður að láta atvinnurekendur vita, að það setur ekki ávallt l. gegn verkalýðnum, heldur getur líka tekið ofan í við þá sjálfa.

Hæstv. forsrh. sagði, að Eimskipafélag Íslands mundi verða við þeim óskum, sem bærust frá ríkisstjórninni. Ef svo er, hvers vegna reynir ríkisstjórnin ekki þá leið núna. Fyrir nokkru gat hæstv. forsrh. haft áhrif á eimskipafélagið í þá átt, að það gekk að kröfum nokkurra starfsmanna sinna, og nú ætti hæstv. rh. að beita sér fyrir því, að gengið verði að þeim kröfum, sem fram hafa komið af hálfu verkamanna. Annars óttast ég, að vissir menn séu svo harðvítugir í yfirstéttaranda sínum, að þeir haldi máli sínu til streitu og beygi verkalýðinn, og meira að segja, að ríkisstjórnin gæti ekki haft áhrif á þá. En þeir mundu ekki kæra sig um, ef Alþ. samþ., að gengið væri að kröfum verkamannanna. Frá því 7. ágúst hafa stjórnir eimskipafélagsins, vinnuveitendafélagsins og Dagsbrúnar setið við samningaborðið, og það hefur engan árangur borið. Í gær var sáttanefndarfundur, sem ekki bar neinn árangur, og í kvöld verður aftur reynt að komast að samkomulagi. Ég get fallizt á, að þessu máli verði vísað til n. nú, svo framarlega sem þeir utanþingsmenn, er með málið hafa að gera, fái að vita í dag, að frv. verði afgr. á morgun. Málinu verður að hraða, því að mjög mikil hætta getur stafað af því að láta slíkt vandamál bíða úrlausnar deginum lengur.