19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (739)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Einar Olgeirsson :

Ég heyrði það á ræðu hv. þm. V.-Sk. (SvbH), að svo framarlega sem hann hefur talað fyrir hönd Framsfl. í þessu máli, veit Framsfl. ekki sitt rjúkandi ráð í þessu máli. Ég skoraði mjög eindregið á hann að gefa upplýsingar um það, hvað hann vildi gera í málinu — ekki vegna þess, að ég byggist við góðum ráðum þaðan, — yfirleitt hefur maður ekki fengið nema slæm ráð frá honum. En ræðu hans mátti skoða sem gjaldþrotayfirlýsingu, því að hann sagði bara: Ég vil engan dóm á þetta leggja. Þeir þóttust þó dómbærir framsóknarmenn hérna um árið, þegar þeir ákváðu það kaup handa verkamönnum, sem þeir áttu að sætta sig við, á 9 klst. voru l. um það drifin í gegnum þingið.

Hv. þm. V.-Sk. minntist á það, að hér væri um kúgunarl. að ræða gegn atvinnurekendum, ef frv. væri samþ., ný þrælalög, sem beindust aðeins gegn atvinnurekendum í staðinn fyrir að beinast gegn verkamönnum. En það er ekki verið með þessu frv., ef að l. verður, verið að fyrirskipa atvinnurekendum neitt um að borga ákveðið kaup, heldur að fyrirskipa að taka eitt ákveðið verk undir stjórn ríkisins vegna þess, að ef þetta verk stöðvast, stafar hætta af því fyrir frelsi og sjálfstæði landsins. Og eftir l. liggja þyngstu refsingar við því að valda því, að erlent vald grípi inn í atvinnulíf Íslendinga. Þarna þarf að afstýra hættu með því að taka þarna út úr eitt sérstakt verk, sem ákveða á, að ríkisstjórnin eigi að ráða, hvernig sé unnið. Síðan geta atvinnurekendur og verkamenn haldið áfram sínum samningum eins og þeir vilja. Hér er því um allt annað að ræða heldur en hv. þm. V.-Sk. vill vera láta. En ég heyri á ræðu þessa hv. þm., ef á að skoða hann sem fulltrúa Framsfl. við þessar umr., að Framsfl. er sama, hvernig fer um þetta.

Þá sagði hv. þm. V.-Sk., að hann sæi ekki eðlismun á því, hvort átvinnurekendur eða verkamenn væru beittir valdi í vinnumálum af hálfu þess opinbera. En ég veit, að í framkvæmd sér Framsfl. það ráð, að beita sér aðeins fyrir því að setja l. móti verkalýðnum, en með atvinnurekendum, en ekki það gagnstæða. En ef á að taka þetta til athugunar eitthvað nánar, þá má þó segja það, að það þóttu ekki þrælal., þegar mjólkurstöðin var tekin hér um árið leigunámi til þess að framfylgja öðrum l.. sem þá voru gefin út. Man ég þó ekki til, að sjálfstæði landsins stafaði nein hætta af því, þó að mjólkurstöðin yrði ekki tekin leigunámi.

Þá minntist hv. þm. V.-Sk. á viðureignina 9. nóvember 1932 og talaði um, að annars vegar hefðu verið óvitar að verki, en vildi ekki ákveða, hvoru megin óvitaskapurinn hefði verið. Þar áttust við lögreglustjóri annars vegar, en hins vegar verkamenn. Ég vildi biðja þennan hv. þm. að athuga, hversu nærri Framsfl. hann heggur með þessu.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. sagði, vil ég skjóta því fram, að hann sagði, að það væri hugsanlegt, að það væri ekki hægt að rísa undir þeim kröfum, sem verkamenn gera. Ég býst ekki við, að það sé skoðun manna. Það hefur líka tíðkazt, að kaupmenn og seljendur vara hafa ráðið verðinu á vörum sínum. Hins vegar hefur rétturinn verið tekinn af verkamönnum um að ráða kaupi sínu og kjörum. Og meðan kröfur verkalýðsins ganga ekki lengra heldur en þær ganga nú, virðist mér einsætt, að það sé ekki ríkisins að standa á móti þeim, eftir að það hefur hvað eftir annað staðið á móti verkalýðnum eins og það hefur gert.