18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

30. mál, alþýðutryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Ég hygg, að það sé rétt að samþykkja þetta frv. með því tekjumarki, sem í því felst, þar sem það er bæði rétt og eðlilegt, að það hækki frá því, sem það er ákveðið í 1., þar sem tekjur manna hafa mjög aukizt. Þar sem mér virtist það ekki nægilega skitið við 2. umr. þessa máls hér í d., hvers vegna verið var að hafa tvöfalt gjald til sjúkrasamlagsins, vil ég taka það fram, að það var aðallega af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að undirbúningsnefnd, sem um þetta mál fjallaði, sá ekki ástæðu til, að hið opinbera greiddi styrk þeim mönnum, er voru fyrir ofan þetta tekjumark, en hin var sú, að læknar töldu sig missa af tekjum sínum, ef allir hátekjumenn yrðu gerðir tryggingarskyldir. Þetta var það, er olli því, að tryggingarskyldan var ekki látin alveg ná upp úr.

Ég skal játa það, að það hefur sýnt sig við síðari reynslu í þessum efnum, að þetta er vafasamt ákvæði, — og skal taka undir það, sem hv. 5. þm. Reykv. (BBen) sagði um þetta, — af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi af breyt. þeim, er koma af sveiflum í fjárhagsmálum okkar, og í öðru lagi vegna þess, að einungis munu það vera þeir af tekjuháum mönnum, sem tryggja sig, er búast við miklum veikindum og sjúkravist, eða hafa stórar fjölskyldur. — Það er því síður en svo, að sjúkrasamlagið hagnist á þessu frjálsa vali, þar sem hið öfuga úrval kemur aðeins til greina. Ég hygg því, að það sé fullkomlega kominn tími til að athuga þetta ákvæði.

Brtt. á þskj. 72 get ég greitt atkv. með tilliti til þess, að bersýnilegt er, að ef markið er ekki hækkað, þá fjölgar mjög þeim mönnum, sem komast yfir tekjumarkið, en ég álít það óheppilegt m. a. vegna þess, að nú er gert ráð fyrir, að endurskoðun l. standi fyrir dyrum, og gætu þá margir hafa verið látnir greiða tvöfalt gjald af litlu tilefni.