28.08.1942
Neðri deild: 17. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (745)

72. mál, virkjun Fossár í Ólafsvíkurhrepp

Pétur Ottesen:

Í áframhaldi af því, sem flm. frv. hefur réttilega skýrt frá gangi þessa máls, þá vil ég skýra frá því, að fjvn. hefur sent ríkisstj. bréf varðandi öll rafveitumál, að því er snertir ríkisábyrgð fyrir lánum til þeirra, og farið þess á leit við stj., að hún undirbyggi frv. um, hvaða kröfur þyrfti að uppfylla til þess, að hægt væri að veita aðstoð frá ríkisins hálfu til þessara hluta, til þess að hægt væri að koma betra skipulagi á þessi mál, sem hafa þvælzt hvert fyrir öðru á tveimur undanförnum þingum. Fjvn. hefur átt tal um þetta við atvmrh., sem þessi mál heyra undir, og hefur hann tekið því vel að láta undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. hér að lútandi. Ég vildi láta þessa getið um leið og þetta mál er hér til umr., en ég mun greiða atkv. með því, að frv. þetta fari til nefndar.