13.08.1942
Neðri deild: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (754)

21. mál, lendingarbætur í Vík í Mýrdal

Flm. (Sveinbjörn Högnason) :

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að bera hér fram þessa till. á þskj. 21 um, að rannsókn verði nú þegar gerð á möguleikum fyrir því að gera lendingarbætur í Vík í Mýrdal.

Eins og kunnugt er, er suðurströndin öll þannig, að hafnleysið er þar tilfinnanlegt, og þar af leiðandi eru allir aðflutningar á þessum stöðum mjög svo kostnaðarsamir og erfiðir undir mörgum kringumstæðum. Ef landleiðin teppist, er alveg óhugsandi, að hægt sé að draga að á þessu svæði. Þetta gildir alveg sérstaklega um Vestur-Skaftafellssýslu, sem hefur orðið að flytja allt landleiðina, en alveg hætt að nota sjóleiðina, þar sem lendingin er svo óviss.

Það mun hafa verið gerð áætlun um hafnargerð í Vík á árunum 1918–1920 af Kirk verkfræðingi, sem þá gerði hér ýmsar áætlanir, en mér er ekki kunnugt um, hvernig sú áætlun var. A. m. k. hefur ekkert verið unnið eftir henni, svo að hún mun hafa verið talin sízt aðgengileg til framkvæmda. En ég hygg, að þær rannsóknir, sem þá voru gerðar, hafi aðallega verið miðaðar við stóra hafnargerð og örugga, en ég er sannfærður um, og það er trú ýmissa fyrir austan, að það megi gera bætur með ekki miklum tilkostnaði, sem þó gætu verið til mikillar hjálpar.

Þá vil ég benda á það, að eigi þorpið í Vík að eiga nokkra framtíð fyrir sér, er nauðsynlegt, að þar skapist skilyrði til atvinnurekstrar fyrir þorpsbúa og þeir eigi ekki eins mikið undir öðrum um afkomumöguleika sína eins og nú er. Ef lendingarskilyrði yrðu bætt, gætu þeir stundað útræði. Þeir, sem kunnugir eru, telja, að í svokölluðum Bás við Reynisfjall megi gera umbætur, sem væru mjög til hagræðis fyrir útræði í Vík, án þess að mikill kostnaður yrði því samfara.

Ég held, að bæði frá sjónarmiði Víkurbúa, hvað atvinnumöguleika snertir og sömuleiðis hvað alla aðflutninga snertir fyrir þetta hafnlausa hérað, sé nauðsynlegt að athuga þetta. Það getur viljað svo til í snjóavetrum, ef mikil brögð eru að skemmdum á vegum og brúm, að óhugsandi sé að koma flutningi til þessara staða.

Ég vildi því mega vænta þess, að d. liti þessa málaleitun með fullri vinsemd og hún gæti fallizt á það, að þessi rannsókn verði gerð ásamt áætlun um, hvað þessar lendingarbætur mundu kosta. Það sjá allir, að það er hverfandi kostnaður, sem lagt er í við það að láta þessa rannsókn fara fram, svo að ekkert sé því til fyrirstöðu, að menn geti fullvissað sig um það, hvað hægt er að gera í þessu efni á þessum stað.