18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

30. mál, alþýðutryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Út af fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv. (BBen) vil ég segja, að ég álít ekki heppilegt að gera þá breyt., sem hann drap á. Til þess liggja ýmsar ástæður. Ég gat þess áðan, að ég teldi sjálfsagt, að sú n., sem skipuð yrði til endurskoðunarinnar, hefði ekki aðeins samvinnu við tryggingarstofnunina, heldur líka sjúkrasamlögin. Það liggur heldur ekkert fyrir frá þeim enn þá. Ég hygg, að erfitt sé að fella þetta niður úr tryggingarl., án þess að athugaðir séu um leið samningar við lækna, og er ekki ósennilegt, að þetta hafi einhver áhrif á þá. Það er ekki nema nokkur hluti hátekjumanna, sem notar réttinn til að tryggja sig og borgar tvöfaldan skatt. Svo er annað, sem er „princip“atriði, hvort eigi að fara þá leið, sem upphaflega var gert ráð fyrir í tryggingarl., að þeir, sem hefðu tekjur yfir vissu marki, væru alveg fyrir utan trygginguna, eða lögleiða tryggingarskyldu alveg upp úr. Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að gera má ráð fyrir, að þótt brtt. á þskj. 72 verði samþ., þá verði margir fyrir ofan tekjumarkið, en þó mundi þeim mjög fækka, ef till. yrði samþ. Ég held einnig með tilliti til endurskoðunarinnar, að heppilegt sé að draga úr því raski, sem mundi leiða af því, að markið væri ekki hækkað, þó að ég játi, að sú hækkun, sem hér er gert ráð fyrir, jafnist ekki fullkomlega á við frádráttinn til skatts.