02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Bjarni Bjarnason:

Þar sem form. fjvn. er ekki hér viðstaddur, skal ég út af því, sem hv. síðasti ræðum. sagði, taka það fram, að það var alveg rétt, sem hann sagði, að meiri hl. n. tók þá ákvörðun að skrifa ríkisstj. um þetta mál og henni falið að athuga það nánar. Það, sem olli því, að ég var fylgjandi meiri hl. í þessu, þó að ég sé þess mjög fýsandi, að mál þetta nái fram að ganga, var það, hve mjög nm. voru ósammála um tilgang hælisins, hvort þangað ætti að setja dæmda menn og það yrði þá eins konar glæpamannahæli eða það ætti sem mest að vera uppeldisstofnun. Út af þessum ágreiningi var það ráð tekið að fara þess á leit við stj., að hún undirbyggi mál þetta betur fyrir næsta þing og legði þá fram skýrt álit á því, hver ætti að vera tilgangur hælisins.

Það, sem ég hér hef rakið úr gangi málsins í n., hygg ég, að sé álit 7 manna af 9.