18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (786)

49. mál, bændaskóli Suðurlands

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Fyrst, þegar till. var borin fram af minni hálfu um stofnun bændaskóla á Suðurlandi, þá eyddi þáverandi forsrh., núv. þm. Str., málinu með þeirri röksemd, að hann ætlaði bráðlega að skipa n. til þess að athuga skólamálin í heild. Þessi nefnd var þó aldrei skipuð. — Síðan fluttu flokksmenn hans frv. um stofnun skólans, og var það lögfest. Nú flyt ég till. um, að þessu máli verði hraðað sem mest, en þá stendur fyrrv. hæstv. forsrh. upp og ætlar að verða æfur við. Ég vil spyrja hv. þm., hvað það er, sem veldur þessum hamskiptum. Hv. þm. segir, að þessi till. sé óþörf, vegna þess að flm. hefði getað farið í stjórnarráðið og lagt málið fram á þann hátt. Hv. þm. veik að því, að stj. sú, sem nú situr, mundi ekki eiga langt líf fyrir höndum. En einmitt þessi möguleiki er röksemd fyrir því, að æskilegt sé, að þingið láti í ljós vilja sinn í þessu máli,

Hv. þm. Str. segir, að ákveðið sé samkv. l. að byggja bændaskóla á Suðurlandi. Þetta er alveg rétt, en till. mín fer fram á að hraða því sem mest, og enn fremur er nauðsyn á, að fjárveitingarvaldið viti glögg deili á málinu. Framkoma hv. þm. Str. í þessu máli er, eins og við mátti búast, prúðmannleg orð, en undirtónninn ósvífinn.