02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Forseti (GSv) :

Ég vil með nokkrum orðum svara þeim hv. þm., er látið hafa í ljós óánægju sína yfir röð sumra mála á dagskránni.

Eins og ég hef oft tekið fram, er dagskrárröðunin engin tilviljun. Málum er þar raðað eftir aldri, þ. e. a. s. eftir því, sem þau koma fram, með tveimur undantekningum þó. Í fyrsta lagi eru þau málin látin sitja fyrir, er allir flokkar hafa staðið að, og í öðru lagi, að skyld mál þeim, sem ofar eru á dagskránni, eru flutt upp að þeim. Ef nú hv. þm. S.-Þ. athugar dagskrána með hliðsjón af því, er ég hef sagt, mun hann komast að raun um, að 19. mál er í réttri röð eftir þeirri reglu, er enginn hefur mótmælt, að sanngjörn væri.

Nú er það síður en svo, að ég sé að hafa á móti þáltill. á þskj. 19 á nokkurn hátt, og mundi ég að sjálfsögðu taka hana fyrir, ef þeir, sem eiga mál ofar á dagskránni, vildu leyfa, að 19. mál yrði tekið fyrir á undan þeirra málum. Þar á meðal er ég með 2. mál, og mundi ég vera fús á að hliðra til fyrir hv. þm. S.-Þ. En eins og allir hv. þm. geta séð og verða að sætta sig við, að fastar reglur verða að gilda við röð mála á dagskránni, því að annars getur farið svo, að allt losni úr böndunum, og þá e. t. v. enginn, sem fær er um að koma þeim í þau aftur.

Um þáltill. hv. 3. landsk. þm. er það að segja, að hún er till. einstaks manns og hefur ekki orðið fyrir því láni að vera færð ofar á dagskrána að öðru líku máli og verður því að vera á sínum stað.

Á þessu stutta þingi er ekki við því að búast, að öll þingmál hljóti afgreiðslu, og verða hv. þm. að sætta sig við það.

Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði, að hann óskaði eftir, að tveggja manna minnihl. nál. um stofnun drykkjumannahælis yrði tekið til umr., þá tel ég það ýmsum vandkvæðum bundið. Þó mun ég sem forseti ekkert hafa á móti því, að mál þetta verði tekið fyrir til umr., ef meiri hl. n. fellst á, að svo verði gert. Annars virðist mér mál þetta vera á rekspöl komið, þar sem það er þegar upplýst, að stj. hafi verið skrifað um málið og henni falið að veita því nauðsynlegan undirbúning. Þessi afgreiðsla mála er ekki orðin svo óalgeng nú orðið, og um það má náttúrlega deila, hvort hentugt sé eða ekki. Einn hv. nm. er búinn að lýsa yfir þessu af hálfu meiri hl. n. En ég vildi gjarnan heyra álit hv. form. n. (PO: Það er búið að skýra afstöðu n.).