27.08.1942
Efri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

Þingfylgi ríkisstjórnarinnar

Haraldur Guðmundsson:

Við umr. á síðasta Alþingi um till. til þál. um vantraust á ríkisstj. var því yfir lýst af hálfu Alþfl., að hann mundi eigi styðja að falli núv. ríkisstj., þótt vantrauststill. væri fram borin af andstæðingum kjördæmamálsins, þann tíma, sem til þess þyrfti að ljúka afgreiðslu þess á Alþingi.

Þar sem kjördæmamálið hefur nú fengið fullnaðarafgreiðslu með samþykkt frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskránni, á þskj. 1. vil ég fyrir hönd Alþfl. gera Alþingi og hæstv. ríkisstj. kunnugt, að núverandi ríkisstj. nýtur eigi lengur hlutteysis Alþfl.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að taka það fram, að með bréfi dags. 11. þm., sem prentað er á þskj. 67, hefur Alþfl. tjáð sig reiðubúinn til þess að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og tillögum varðandi þau vandamál, sem nú eru aðkallandi, og ræða um lausn þeirra við aðra flokka. Er Alþfl. að sjálfsögðu nú við því búinn að taka upp þessar viðræður og leggja fram till. af sinni hálfu.