20.08.1942
Efri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (803)

54. mál, vegagerð

Flm. (Jónas Jónsson) :

Þessi till. er rökstudd nokkuð ýtarlega í grg. Hún lýtur að því að skora á ríkisstj. að hraða vissum umbótum á vegakerfi 1andsins. Það er eðlilegt, að vegakerfi okkar sé ekki eins gott og þörf er á, þegar þess er gætt, að byrjað var á vegakerfinu, áður en bifreiðarnar komu til sögunnar í stað hestvagnanna. Vegirnir verða því að gegna öðru hlutverki, en upphaflega var til ætlazt, ekki sízt nú á allra síðustu árum, er hingað er komið mikið af stórum erlendum bifreiðum. Á mörgum af vegum okkar hagar svo til, að bifreiðar geta ekki mætzt nema á nokkrum stöðum með löngu millibili, og er oft að þessu mikil töf. Vegamálastjóri hefur upp. á síðkastið hallazt að því, að gera beri alla aðalvegi landsins svo breiða, að meðalbílar gætu mætzt á þeim, hvar sem er. En þessu verður ekki komið í kring þegar í stað, og það yrði auk þess mjög dýrt. Er því vafamál, hvort stefna ber að þessu í stað þess að hafa vegina yfirleitt svo mjóa, að ekki sé hægt að mætast á þeim nema á útskotum, sem höfð eru með ákveðnu millibili. Þessa vegi mætti þá síðar breikka, ef ástæða þætti til. Með þessu held ég, að betur væri þjónað þörfum landsins, sem eru þær, að vegakerfið sé lengt og öryggi á vegunum aukið sem mest. Setuliðið hefur reyndar mjög beitt sér fyrir því, að farið yrði að leggja breiða vegi, bæði með því að auka þörfina á þeim og eins með beinum áróðri, og það hefur komið því til vegar, að gerð hafa verið útskot til að mætast á, t. d. í Hvalfirði, í Húnavatnssýslu og sums staðar á Suðurlandi. Vegurinn austur yfir heiðar hefur verið breikkaður, en þó eru þar partar, þar sem hættulegt er að mætast.

Ég vil nú með þessari till. fara þess á leit, að hæstv. ríkisstj. hlutist til um það, að hafizt verði handa um það strax í sumar að gera staði fyrir bifreiðar, þar sem þær geti mætzt. Það er auðvitað ekki hægt að gera allt í sumar, en mikið má þó gera nú þegar. En ég tel það vafasama stefnu hjá vegamálastjóra að vilja hafa vegina tvíbreiða, nema þá allra helztu vegi landsins.

Vil ég svo ekki fjölyrða um þessa till. mína, en ég tel hana tvímælalaust orð í tíma talað.