20.08.1942
Efri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (808)

54. mál, vegagerð

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki svara árás hv. þm. S.-Þ. á vegamálastjóra mörgum orðum. En þó að ég hafi lítið vit á landjörðinni, eins og hann komst að orði, hygg ég, að hann hafi minna vit á vegagerð, og því sé það ofmælt, sem hv. þm. sagði um vegamálastjóra, einn bezta og samvizkusamasta embættismann þessa lands. Hinu hefði hann aftur á móti mátt svara beint, sem ég spurði hann um, hvort þetta ætti að ganga fyrir því að tengja blómlegar byggðir við vegakerfi landsins. Þessu hefur hann ekki svarað, og var þess raunar ekki að vænta, að hann mundi hugsa svo mikið um sveitirnar eða bera hag þeirra svo mjög fyrir brjósti, að hann treystist til að svara þessu neitandi. Kemur hér fram hinn sanni hugur hans til sveitanna. En ég tel hins vegar, að enga þáltill. þurfi til, ef hér er einungis um að ræða venjulegt viðhald vega. Þarf áreiðanlega ekki að áminna vegamálastjóra í því efni. Þar hefur hann eins gott vit á málunum og hv. þm. S.-Þ. Ég hef auðvitað ekkert á móti því, að vegir landsins séu lagfærðir, en ég vil aðeins fá úr því skorið, hvort fé það, sem til þess fer, á að dragast frá því fé, sem fara á til vegagerða í dreifbýlinu, og þá jafnframt að verða til þess að tefja þær framkvæmdir, eða hvort hér er aðeins um að ræða ábendingu til vegamálastjóra að láta þessar lagfæringar á vegunum ganga fyrir öðru nauðsynlegu viðhaldi.