28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

Þingfylgi ríkisstjórnarinnar

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv. form. Framsfl. segir, að ef engir þræðir hefðu verið á milli þessara flokka, þá hefði ekkert verið að tilkynna. Ég veit ekki betur en hann hafi verið að gefa yfirlýsingu um, að hans flokkur sé í andstöðu við stj. Framsfl. hefur verið á móti stj., og hinir flokkarnir báðir hafa verið á móti stj. og eru það. Þegar stj. tók við völdum, lýsti hún yfir, að hún hefði ekki beðið um stuðning annarra flokka og hefði ekki stuðning annarra flokka, og það er að sjálfsögðu óbreytt enn.