07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (834)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum um miðjan maí s. l., þá lýsti hún því yfir, hvert hennar hlutverk yrði, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp nokkurn hluta þeirrar yfirlýsingar. Þar segir svo: „Hlutverk stjórnarinnar verður því fyrst og fremst það tvennt að sjá farborða máli því, er stjórnarskiptum hefur valdið — stjórnarskrármálinu — og að inna af hendi það höfuðverkefni undanfarinna ríkisstjórna að verja þjóðina gegn áföllum á þessum einstæðu og örðugu tímum, framfylgja lögum og annast daglega afgreiðslu þeirra mála, er á hverjum tíma koma til úrskurðar og framkvæmda sérhverrar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin mun samkv. eðli málsins ekki telja sig færa um að taka upp eða fylgja fram nýjum ágreiningsmálum, meðan stjórnarskrármálið er til meðferðar, nema hún telji óumflýjanlega þjóðarnauðsyn til bera.

Enn fremur segir á þessa leið: „Þá er það vilji stjórnarinnar, að skipuð verði mþn., er semji frv. til l. að nýrri stjórnarskrárbreyt., og gefist þá Alþ. kostur á að ganga endanlega frá sjálfstæðismálum þjóðarinnar í samræmi við áður gefnar yfirlýsingar Alþ. í þeim efnum, þannig að stofnað verði lýðveldi á Íslandi.“

Samkv. þessu hefur ríkisstj. ekki talið rétt að hafa málefnaflutning fyrir Alþ. nú, og stuðningsflokkur stjórnarinnar, Sjálfstfl., kýs einnig, að svo verði. Samt hefur ríkisstj. lagt fyrir Alþ. eitt frv. og eina till. til þál. og mun sennilega flytja annað frv., en þess ber að gæta, að ríkisstj. lítur eigi á þetta sem málefnaflutning, heldur sem framkvæmdaratriði, því að eðli þessara mála er þannig, að ríkisstj. mundi hafa framkvæmt þau eftir heppilegum leiðum, ef Alþ. hefði ekki komið saman nú. Ríkisstj. hefði þá afnumið nokkurn hluta gerðardómsl. með brbl. og hlutazt til um, að verð á síldarmjöli yrði eins og farið er fram á í till. þeirri til þál., sem hér liggur fyrir til umr. Það hefur sýnt sig með gerðardómsl., að þau hafa eigi verið haldin sem skyldi, og það er illt að halda í bókstaf l., sem í rauninni eru úr gildi. Nú síðast reis upp deila um kaupgjald þeirra, sem vinna við afgreiðslu skipa, og horfði illa í því máli. Ríkisstj. bárust þá skilboð frá því erlenda valdi, sem hér er nú, þess efnis, að ef eigi yrði ráðin bót á þessu, þá ættum við það á hættu, að hætt yrði að lána Íslendingum skipakost til aðdráttar á nauðsynjavörum, en undir því geta landsmenn eigi risið. Þegar svo var komið, taldi ríkisstj. ekki annað fært en hækka kaupið til þess að verjast siglingastöðvun. Þetta er í stuttu máli sú skýring, sem ríkisstj. hefur fram að færa fyrir því, að hún flutti þessi mál nú, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar af hennar hálfu.

Auk frv. þessa um afnám gerðardómsl. og till. til þál. um söluverð á síldarmjöli innanlands, þá mun ríkisstj. að öllum líkindum flytja frv. til l. um hafnargerð á einum stað hér á landi.

Varðandi þessa till. til þál., sem hér liggur fyrir, nægir að mestu leyti að vísa til grg. hennar. Aðalefni till. er það, að ríkisstj. megi greiða úr ríkissjóði fé, sem telst nauðsynlegt til þess, að verð á síldarmjöli verði eigi hærra á þessu ári á innlendum markaði heldur en það var síðasta ár, eða 32 krónur pr. 100 kg. Vonandi er hv. Alþingi sammála um, að eins og nú er ástatt fyrir landbúnaðinum, þá munu bændur ekki geta risið undir hærra verði, og þess vegna þarf hið opinbera að gera ráðstafanir í þá átt. Grassprettan hefur verið slæm, og enn fremur kemur þar fleira til greina, svo að horfurnar eru ekki glæsilegar fyrir bændurna nú. Af þessu leiðir, að þörf bænda fyrir fóðurmjöl verður með allra mesta móti í ár, en afkoma margra bænda hins vegar ekki svo góð, að þeir geti keypt mjöl hærra verði en áður um ræðir. Það má geta þess, að mjölkaup bænda s. l. ár munu hafa numið hér um bil 5600 smálestum, en nú má gera ráð fyrir, að þessi kaup nemi allt að 7000 smálestum. Með samningi dags. 27. júní 1942 seldu Íslendingar Agricultural Marketing Administration, U. S. Department of Agriculture 25000 smálestir af síldar- og fiskimjöli, með svo háu verði, að samkv. útreikningum, sem gerðir hafa verið og miðast að nokkru leyti við gæði mjölsins (proteinmagnið í mjölinu), mun láta nærri, að það verði tæpar 52 krónur hver 100 kg fob. Munurinn yrði því tæpar 20 kr. á sekknum. Ef 7000 smálestir færu á innlendan markað með 32 króna verði, þá mundi það baka ríkissjóði útgjöld, allt að 1 millj. og 400 þúsund kr. — Tekjur ríkissjóðs eru miklar nú og meiri en gert var ráð fyrir, þegar fjárl. voru samin, en útgjöldin eru einnig meiri. Þess vegna hefur ríkisstj. talið rétt að afla ríkissjóði sérstakra tekna til að standast þessi útgjöld og ákveðið að hagnýta heimild í 5. gr. laga nr. 98 1941 til þess að leggja 10% útflutningsgjald á útfluttan fisk, annan en þann, sem brezka matvælaráðuneytið flytur út. Nú hefur risið upp óánægja um þetta, sérstaklega hjá þeim útgerðarmönnum og sjómönnum, sem veiða fisk og selja í skip, svo að vera má, að þessu verði breytt þannig, að heimildin nái aðeins til togara og annarra þeirra skipa, sem sigla með eigin afla. Ríkisstj. telur, að þessi atvinnuvegur þoli þennan skatt, en álítur, að gera beri nákvæmar athuganir, áður en reglugerðin er framkvæmd, vegna þeirrar óánægju, sem upp hefur komið, og af því að markaðsverð á ísfiski í Englandi hefur verið með minnsta móti nú að undanförnu.

Ekki er unnt að svo stöddu að segja, hversu miklar verði tekjur ríkissjóðs af þessum tolli, en á pappírnum, að óbreyttum kringumstæðum, munu þær nema allmörgum milljónum króna. En sá galli er á gjöf Njarðar, að bein afleiðing af þessum tolli verður rýrnun tekjuskattsins og stríðsgróðaskattsins annars vegar, en útsvarsstofns bæjar- og sveitarsjóða hins vegar. Ef ekki þykir nauðsynlegt að bæta bæjar- og sveitarfélögunum þennan tekjumissi, þá verða aukatekjur ríkisins af þessum tolli allmiklu meiri en útgjöldin vegna mjölsölunnar.

Þetta er sú grg., sem ríkisstj. hefur fram að færa með þessari till. til þál., sem ég vona, að fái góðar undirtektir hér á hæstv. Alþ. — Ég vil svo gera það að till. minni, að málinu verði að þessari umi. lokinni vísað til síðari umr. og fjvn.