07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (843)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Einar Olgeirsson:

Ég býst við, að allir hv. þm. séu sammála um aðalatriði þeirrar till., sem liggur fyrir, og geri hana ekki að sérstöku umtalsefni. Að því er snertir þær aðferðir, sem á að nota til þess að útvega tekjur til þess að standast þau útgjöld, sem ríkissjóður tekur á sig með þessu, þá heyrist mér á hæstv. forsrh., að það muni verða athugað að láta ekki 10% útflutningsgjaldið koma hart niður á smáútveginum, — að það komi til með að stöðva hann, eins og nú lítur út fyrir og veruleg hætta er á. En á þessu stigi málsins ætta ég ekki að ræða það til hlítar.

En eitt atriði í ræðu hv. þm. Str. vildi ég gera nokkra aths. við, og það er, að ástæðan til þess, að nú skuli vera borgaðir ¾ úr milljón úr ríkissjóði til þess að gera bændum mögulegt að fá fóður handa skepnum sínum, það stafar alveg sérstaklega af skorti á vinnuafli til landbúnaðarins. Hvernig stendur á þessum skorti? Mér virðist liggja í orðum hv. þm. Str. og hefur komið fram í flokki hans og blöðum, að það væri ef til vill að einhverju leyti verkalýðnum og verkalýðssamtökunum að kenna. En einmitt verkalýðssamtökin og sérstaklega það félag ófaglærðra verkamanna, sem stærst er í landinu og mest áhrif getur haft, sem sé Dagsbrún, hefur fyrir meira en missiri síðan skrifað ríkisstj., sem þá sat og þessi hv. þm. var forsrh. og landbrh. fyrir, og boðið stj. vinsamlega samvinnu um að tryggja vinnuafl til þess að geta framleitt það, sem landsmönnum er nauðsynlegt. En sú ríkisstj., sem að völdum sat og þessi hv. þm. var forsrh. í, hafði aldrei svo mikið við einu sinni að svara þessum bréfum frá stærsta verklýðsfélagi landsins. Þvert á móti gerði sú ríkisstj. ráðstafanir, sem þessir verkamenn gátu ekki skilið öðruvísi en sem hnefahögg í andlit þeirra, — ég á við setningu gerðardómsl. Í stað þess að taka upp vinsamlega samvinnu við verkalýðinn um að leysa vandamál, sem verkalýðssamtökin sáu í janúar eða febrúar, að hlutu að vera aðsteðjandi, í stað þess að svara vinsamlegri málaleitun um samvinnu reynir stj. að framkvæma gerðardómslögin þvert á móti vilja og hagsmunum verkalýðssamtakanna og án þess að hafa vald á bak við sig í landinu, sem gæti virkilega framkvæmt þessi þvingunarlög, þannig að auðséð var, að verið var að koma öllu í öngþveiti. Hv. valdhafar hafa kannske ekki verið búnir að átta sig á því, hvaða vald verkalýðurinn er í landinu. Þeir hafa ef til vill lært það síðan.

Ég vildi taka þetta fram vegna þess, að mér fannst í þessari ræðu hv. þm. Str. koma fram greinileg tilhneiging til að skella skuldinni á verkalýð bæjanna fyrir það, að orðið hefur að greiða 1¾ millj. kr. til þess að tryggja nauðsynlega framleiðslu landbúnaðarins, og þetta mundi vafalaust ekki verða seinasta fjárfúlgan í þessu skyni.

Ég verð hins vegar að segja, að sú stj., sem tók við, hefur ekki heldur tekið upp þessa samvinnu við verkalýðssamtökin, sem nauðsynleg hefði verið, þó að hún hafi hins vegar, eins og hæstv. forsrh. skýrði frá í framsöguræðu sinni, séð, að ekki var til neins að halda áfram með það öngþveiti, sem búið var að skapa með gerðardómsl., og hafi byrjað að láta undan. Og ég held það sé nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér ljóst í byrjun þessa þings, að hér er um að ræða vandamál, sem ekki er hægt að leysa nema með vinsamlegri samvinnu við verkalýðinn. Á móti því hefur verið stritazt alveg sérstaklega síðasta missirið og í raun og veru lengur, og afleiðingin er það öngþveiti, sem nú hefur skapazt.

Í sambandi við fyrirspurn, sem þegar er komin fram um það, hve mikið er greitt með ýmsum afurðum, sem framleiddar eru í landinu, til að halda niðri verði á þeim, vil ég bæta því við, að mjög æskilegt væri að fá upplýst, hvað sé greitt með þeim vörum, sem ekki eru framleiddar í landinu, eins og t. d. áburði. Og ekki kemur til mála, að nokkur haldi fram, að íslenzkir verkamenn eigi beinan eða óbeinan þátt í því.