07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (845)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Aths. mín skal ekki verða löng, enda er þess að vænta, að umr. verði lokið á þessum fundi og málið komist til n. — Varðandi ræðu hv. þm. Str. get ég um sumt vísað til þess, sem hv. þm. Seyðf. sagði. En ég hygg, að til viðbótar megi álykta, ef miðað er a. m. k. við það, sem búið er að selja út úr landinu, og sé það með svipuðu verði, þá komi í sama stað niður, hvort reiknað er með markaðsverði eða kostnaðarverði, þ. e. innkaupsverð og í viðbót sjóðsframlag, vélaslit, fyrning og annað slíkt. Að það sé verið að greiða hærra úr ríkissjóði fyrir mjöl til bænda en nauðsynlegt er, get ég látið liggja milli hluta. Núv. ríkisstj. gerði það sama og fyrrv. ríkisstj., og báðum er okkur hv. þm. Str. kunnugt um erfiðleikana á þessu sviði.

Það má vera, að aldrei komist sæmilegt lag á atvinnulíf okkar, nema hægt sé að ráðstafa vinnuaflinu á sem allra skynsamlegastan hátt, beina því t. d. fremur til landbúnaðar og sjávarútvegs en til húsabygginga, að undanskildum þeim byggingum, sem eru alveg óumflýjanlega nauðsynlegar fyrir framhaldandi líf þjóðarinnar. Því að það er engin skynsemi að halda, að Íslendingar geti komizt sæmilega af án þess, að árlega sé svo og svo mikið unnið í landinu. Hitt er annað mál, að eins og skortur er á vinnuafli, þá er ekki skynsamlegt að byggja stórhýsi, hvort sem er til rekstrar eða einkaíbúðar. Og ég hef fullan vilja á því að leita samstarfs við alla flokka um að beina vinnuaflinu frá því, sem ekki er talið bráðnauðsynlegt, og til þess bráðnauðsynlega. En bæði mér og hv. þm. Str. eru kunnir erfiðleikarnir á þessu, vegna þess að við höfum unnið saman og sýnt sameiginlega viðleitni í þessa átt, þótt ekki hafi hún borið nógan árangur enn þá.

Um fóðurmjölskaupin er það að segja, að þau hafa orðið meiri við það, að spretta varð með minna móti víða í landinu.

Annars má þakka öllum hv. ræðumönnum fyrir góðar undirtektir. Ríkisstj. vildi ekki eiga hlut að því að flytja inn á þing ágreiningsmál og reiddi sig á, að ekki yrði ágreiningur um þetta, sem komið er á daginn.

Ég ætla ekki heldur að fjölyrða út af ræðu hv. þm. Seyðf., því að það er ekki nauðsynlegt vegna málefnisins. Hann sagði, að batnandi manni væri bezt að lifa, og greip ég þá fram í og sagði, að ég væri kominn í svo góðan félagsskap. Á þessu má gefa þá skýringu, að áður var ég í samvinnu við hans flokk í ríkisstj. En nú þykir mér vænt um, að hv. þm. telur mig kominn í betri hóp, þegar ég er með sjálfstæðismönnum einum, enda er það svo.

Hv. þm. sagði, að það væri krafan að leggja á togarana eina. Ég vil ekki deila um þetta nú, enda alltaf tækifæri til þess. Ég held ég geti staðhæft með fullri vissu, að till. okkar í ríkisstj. hafi allar hnigið í þá átt að leggja á allan fiskinn og í því sambandi vár rætt hvað eftir annað, hvort útgerðin þyldi aðeins 31½ eyri í stað 35, sem við vorum að miða við hér frítt um borð. Hann sagði líka, að úr því að ég viðurkenndi, að fært sé að leggja þetta gjald á nú, þá sé illa farið, að það var ekki lagt á fyrr. Ég efast um, að það hafi nokkurn tíma verið betur fært en nú. Að vísu hafa stórhækkað skattar. En þessi útgerð, sem var í skuldafeni, hefur rétt sig fullkomlega við. Og ég tel það fullkomið stefnumál fyrir mig og Sjálfstfl. og aðra flokka, að reynt verði að firra, að atvinnurekstur, sem er jafnþýðingarmikill fyrir þjóðarbúskapinn eins og stórútgerðin, falli úr sögunni. Og ég viðurkenni, að ég og aðrir hv. þm. lítum of mikið á útgerðarmanninn sem slíkan og teljum hann standa nægilega vel, en gleymum, að fyrirtækin þurfa að vera sterk til þess að standa stöðugt undir hlutverki sínu fyrir þjóðina. En þetta verður e. t. v. tækifæri til að ræða síðar. En ég vil beina athygli að því, að afkoma togaranna á árinu 1942 er að mínu viti betri en áður. Að vísu eru teknir miklu þyngri skattar, en það er réttlátt, því að efnahagurinn er breyttur til stórvægilegs batnaðar frá því, sem var.

Það er misskilningur hjá hv. þm., að ríkisstj. hafi „skorið alla við sama trog“. Ég sagði áðan, að flutningaskip, sem selur fyrir 10 þús. pund í Bretlandi sem hámarksverð, mundi þurfa að greiða af þeirri sölu í ríkissjóð 7 þús. kr. En togara, sem selur fyrir sömu upphæð, taldi ég greiða 26 þús. kr., að frádregnum kostnaði við siglingu milli landa. Ég býst við, að það verði 17–18 þús. kr., þar sem flutningaskipin greiða 7 þús. kr.

Ég er ekki sömu skoðunar um það, að í rauninni stafi hætta af þessum tolli, en þetta er komið inn í meðvitund manna líka af því, að fleiri örðugleikar en þessi tollur hafa steðjað að. Ég vil þess vegna, vegna óska manna, eiga hlut að því, að þessi tollur verði ekki lagður á í bili. Kemur þá í ljós, að hve miklu leyti örðugleikarnir eru tollinum að kenna. Ég vil eiga hlut að því, að þetta verði gert, og vona, að það komist fljótlega til framkvæmda.

Ég þarf þá ekki að taka annað fram í tilefni af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram.