07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (846)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Hermann Jónasson:

Það voru aðeins smáatriði, sem ég vildi taka fram. Það hefur verið upplýst af atvmrh., að gerðar verði ráðstafanir til þess að flytja til landsins erlendar fóðurvörur í sambandi við þær till., sem fram hafa komið.

Viðvíkjandi því atriði, sem ég minntist á, þarf ég ekki að endurtaka neitt. Það hefur ekki verið véfengt, enda ekki hægt, að þær ráðstafanir, sem hér á að greiða að 1/3 eða ½, séu gerðar vegna þess, að landbúnaðinum hefur ekki verið séð fyrir vinnuafli, að það á að greiða ¾ úr milljón af þessum ástæðum. Fyrst er framleiðslan lömuð með rangri stefnu, og síðan er reynt að rétta hana við með ¾ milljón kr. Þetta er ekki á einu sviði, heldur mörgum, og ríkissjóður þolir þetta ekki til lengdar.

Það er orðað svo, að þetta sé gert til styrktar framleiðslunni, en það má eins orða það svo, að þetta sé gert til þess að fólkið í kaupstöðunum geti fengið mjólk að drekka og kjöt að borða: Ég skal ekki ræða um þetta nánar. Það kemur fram í sambandi við annað mál, sem hér verður rætt.

En út af því, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að það yrði að leysa síldarverksmiðjurnar undan þeirri skyldu að þurfa að selja með því verði, sem nú er ákveðið, vil ég segja það, að hvort sem þetta er erfitt eða ekki fyrir verksmiðjurnar, eru þær þó ekki lausar við þá skyldu, og meðan það er ekki, verða þær að selja samkv. því.

Um það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um tilboðið, sem gert var fyrrv. ríkisstjórn um vinnuafl, skal ég ekki ræða mikið á þessu stigi málsins eða í sambandi við það mál, sem hér er til umr. Það kemur einnig til athugunar í sambandi við annað mál, en eins og kunnugt er, var sá samningur bundinn því skilyrði, að ríkisstj. afnæmi gerðardóminn, og þar sem ég sem forsrh. hafði ekki ætlað mér að gera það, komu þeir samningar alls ekki til greina.

Nú er lögð fram till. um að afnema gerðardóminn, og eftir það ætti ekki að standa á samvinnu um að útvega vinnukraft. En ég hygg, að menn reki sig á það, að þegar búið er að koma af stað þeirri kaupskrúfu, sem nú er byrjað á, verður ekki hægt að sjá landbúnaðinum fyrir vinnuafli, og þær ráðstafanir, sem verið er að gera í dag, megum við búast við að þurfa að endurtaka. Þetta, sem gerist í dag, er það sama, sem gerðist í Bandaríkjunum í síðustu styrjöld, og var talið, ef síðasta styrjöld hefði staðið lengur, að Bandaríkjamenn hefðu tapað styrjöldinni vegna þess, að þar skapaðist það ástand, sem hér er að skapast, viðvíkjandi framleiðslu á landbúnaðarvörum og hergögnum.

Ég býst ekki við, að ég þurfi að ræða þetta nánar, enda verður það gert síðar. Reynslan mun skera úr því, hvaða ástand skapast í landinu og þá viðvíkjandi þeirri framleiðslu, sem þjóðinni er nauðsynlegust, en þess vegna minnist ég á þetta mál, að ég hygg, að ekki sé rétt að horfa fram hjá því, að þessi greiðsla úr ríkissjóði, þó að ekki sé nema ¾ úr milljón, er aðeins hluti af þeim ráðstöfunum, sem gera verður, en ekki er sjáanlegt, að ríkissjóður geti staðið undir.