20.08.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (861)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Eiríkur Einarsson:

Ég heyrði það á orðum hv. frsm., að hv. n. hefur fjallað um þessa till. Hún hefur lagt áherzlu á að gefa kost á því, að síldarmjölið fáist með þessum kjörum frá fleiri síldarverksmiðjum en ríkisverksmiðjunum eftir því, sem við verður komið. En það er annað atriða sem ég vildi vekja athygli á, og það er það, að gætt verði hagsýni við dreifingu mjölsins. Í því sambandi vil ég beina orðum mínum til hæstv. ríkisstj. og forstöðumanns Skipaútgerðar ríkisins. Ég vil þá beina þeirri spurningu til þessara aðila, hvort ekki mætti koma málum þannig, að strandferðaskip ríkisins hagi ferðum sínum svo, að hentugt verði að flytja þessa vöru til aðalhafna með þeim. Þetta veit ég, að sunnanlands hefði mikla þýðingu. Ég hafði orð á því við fyrri umr. málsins, hvort ekki gæti komið til athugunar, að skip, sem stunda síldveiðar, flyttu síldarmjölið með sér um leið og þau færu til heimkynna sinna. Ég hef bent á þetta sem möguleika, en kunnugir menn segja, að líkur séu til þess, að síldveiðitíma verði svo snemma lokið, að þetta fái illa samrýmzt, t. d. ef líkur væru til að síldarskipin hættu veiðum 6.–12. sept. og flyttu heim með sér farm af síldarmjöli. Hvar er þá geymsla fyrir vöruna eins og nú standa sakir, unz bændur þurfa að nota hana? Þetta er ekki þægilegur tími. Það er þess vegna höfuðnauðsyn, að skip ríkisins fengju áætlun sem næst þeim tíma, er varan yrði sótt, en það yrði eðlilega í sláturtíðinni frá byrjun október og fram eftir þeim mánuði. Ég veit t. d. um þetta hér á Suðurlandi, að fénaður mun einkum fluttur til slátrunar í bifreiðum, og mjölið þá tekið heim á þeim bílum, sem annars færu að heita tómir.

Ég hef átt tal um þetta við marga, sem telja þetta hið bezta fyrirkomulag, sem hægt sé að hafa á þessum flutningum. Ef svo tækist til með góðri forsjá, að skip ríkisins flyttu mjölið suður á þessum tíma, svo að taka mætti það að kalla frá skipshlið á flutningabílana, þá væri að þessu mjög mikið hagræði, í stað þess að útvega fyrst geymslupláss og láta bændur síðan þurfa að kaupa sérstaka leigubíla. Ég legg því ríka áherzlu á þetta og skal geta þess hér, að ég hef átt tal við forstjóra Sláturfélags Suðurlands um málið. Ég skal svo ekki hafa lengra mál um þetta. Vil ég aðeins segja að lokum, að þótt reynt yrði í lengstu lög að komast hjá að teppa geymslur, þá yrði þeirra þó þörf, er á liði, því að vitanlega eru ekki allir bændur búnir að ákveða fóðurbætiskaup sín þegar að haustinu. Þess vegna er höfuðnauðsyn að hafa fyrirliggjandi birgðir fram yfir pantanir.