20.08.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (863)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Það verður að sjálfsögðu, eins og tveir hv. þm. hafa nú óskað eftir, reynt að greiða fyrir flutningi á síldarmjölinu, og er nauðsynlegt, að náin samvinna verði um þetta milli verksmiðjanna og Skipaútgerðar ríkisins. Annars skal ég ekki fara nákvæmlega út í þetta að svo stöddu. Það hefur verið nokkuð um þetta talað, og mun allt gert til þess að greiða flutninginn. Enda er það í allra þágu, eins og skipsrúm er nú, að þessu verði komið sem haganlegast fyrir, svo sem að flutningurinn verði sem stytztur. T. d. get ég sagt það, að þegar er farið að semja við verksmiðjuna á Seyðisfirði um að sjá fyrir mjöli á Austfirðina.

Um brtt. hv. þm. Ísaf. vil ég segja, að ég fæ ekki séð, að hún sé flutt af sanngirni. Það er nú þannig, þegar samið er um sölu ákveðins magns af einhverri vöru, að þá kemur ýmislegt til greina, eins og títt er í samningum, ýmsar ívilnanir og tilslakanir. Ef nú hins vegar framleitt er meira en samið var um, þá verður til tvenns konar verð, samningsverð og afgangsverð. Það væri engin sanngirni í, að verksmiðjurnar fengju meira fyrir það mjöl, sem þær selja á innlenda markaðinum, en það, sem þær hafa samið um sölu á til útlanda. Það getur líka orkað tvímælis, hvaða verð sé í rauninni á mjölinu, þegar það er keypt. Þá gæti og orðið flókinn reikningur, hvað hefði verið afhent á þessu verðinu og hvað á hinu. Enn getur og verið óvíst um hið almenna markaðsverð.

Nei, það verð, sem bæta á síldarmjölið upp í vegna sölu innan lands til fóðurs, verður að reiknast samkv. meðaltalstölu sölunnar það ár eða tíma, sem um ræðir. Mér virðist þessi brtt. sízt gera málið einfaldara né að verksmiðjurnar eigi heimtingu á því, sem þar um ræðir.