27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (906)

66. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Finnur Jónsson:

Það eru margir, sem bíða þess með óþreyju, að þetta mál fái úrlausn á Alþ. Og þó að ég hefði viljað hraða því til lykta frekar en hér er gert ráð fyrir, þá sé ég ekki ástæðu til að gera það að ágreiningi.

En út af brtt. á þskj. 123 frá hv. þm. Snæf. (BjBj) langar mig til að gera fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Það er svo nú, að greidd hefur verið dýrtíðaruppbót á styrki til héraðsskóla, gagnfræðaskóla og húsmæðraskóla samkv. sérstökum l. Nú hafa þeir, sem flytja þessa þáltill., ekki tekið þetta upp í þáltill., en hv. þm. Snæf. hefur borið fram brtt. um það, að við bætist í þáltill. á eftir orðunum „starfsmönnum ríkisins og ríkisstofnana“ orðið: sjálfseignarstofnana. Nú er það kunnugt, að héraðsskólarnir sumir eru sjálfseignarstofnanir, en þó mundi réttara að orða þetta á þann veg í þál., að setja í staðinn orðið „sjálfseignarskólastofnana“.

Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann, ef þessi þáltill. verður samþ., mundi greiða dýrtíðaruppbót á skólastyrki eftir þessari þál., eða hvort hann mundi halda sér við l., sem gilda um þetta efni. Ég vildi fá úr þessu leyst, því að ef hæstv. ráðh. telur ekki unnt að greiða dýrtíðaruppbót á skólastyrkina almennt eftir samþykkt þessarar þáltill., teldi ég, að nauðsyn væri á — að leggja fram brtt. hér að lútandi við síðari umr. málsins. En ég mundi falla frá því, ef hæstv. forsrh. gæfi þá yfirlýsingu, að þessi uppbót yrði greidd eigi að síður.