27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (912)

66. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Mér er ekki alveg ljóst, við hvað hv. þm. V.-Húnv. átti, þegar hann sagði, að ekki lægju fyrir sundurliðaðar skýrslur. Ég hef sagt honum, að við höfum fengið skýrslur frá fjmrn. með sundurliðunum um einstakar stofnanir. Þar er t. d. skrifstofufé sýslumanna út af fyrir sig, laun farkennara, presta o. s. frv. Síðan höfum við fengið launalista með nöfnum starfsmanna, t. d. í fræðslumálaskrifstofunni. Ég veit ekki, hvort hv. þm. óskar eftir nöfnum t. d. allra símastúlkna. Það yrði of mikið verk að lesa það allt, hvað þá heldur melta það. Aðalatriðið er að fá heildarlaunin. Málið er komið frá n., og er ekki vani að vísa málum til n., sem af n. eru flutt.