28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (934)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Gísli Jónason:

Í sambandi við þetta mál vildi ég aðeins mega benda á, að hér í hæstv. Alþ. hefur alveg nýlega verið með samþykki, að ég held allra fulltrúa sveitanna, veitt um hálf millj. kr. til fóðurbætiskaupa. Það hefur einnig komið fram ályktun um að gera allt, sem unnt er, til þess að afla fóðurbætis frá útlöndum, og hefur það á sama hátt náð fullu samþykki hæstv. Alþ. Rökin fyrir þessu hvoru tveggja voru þau, að þetta væri gert til þess að tryggja Íslendingum mat og sjá um, að bústofn landsmanna minnkaði ekki. Nú finnast mér rök hv. þm. Mýr. (BÁ) fyrir þessum nýju framlögum úr ríkissjóði vera aðallega hræðslan við, að hér verði framleitt of mikið af kjöti, sem eigi svo að selja til útlanda fyrir of lágt verð. Í sambandi við þetta vildi ég mega vekja athygli þeirra hv. manna, sem fara með þetta mál fyrir landbúnaðinn, á því, hvort ekki sé rétt að verja minna fé til þess að verðbæta sláturfjárafurðir, en verja aftur því fé, sem sparaðist þannig, til þess að styrkja bændur í því að koma upp heilbrigðum fjárstofni í hinum sýktu héruðum. Það er ljóst, að þetta er framtíðarmál fyrir landbúnaðinn.

Enn fremur vildi ég spyrja, hvort hv. flm. ætlast til, að þegar þetta hefur verið samþ. á Alþ., falli núverandi verðjöfnunargjald niður, og loks vil ég spyrja þess, hvernig þessu verðjöfnunargjaldi hefur verið varið undanfarin tvö ár og hvort búið er að greiða það til bænda. Annars lýsi ég fylgi mínu við þáltill. á 83. þskj.