28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (936)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Flm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Hv. þm. Barð. sagði, að það skyti skökku við, þegar fara ætti að verja miklu fé til verðuppbóta af hræðslu við of mikla framleiðslu á kjöti, í stað þess að verja fénu til þess að koma upp heilbrigðum fjárstofni og takmarka þannig framleiðsluna. En það er vandamál út af fyrir sig, hvernig fara eigi að því að takmarka framleiðsluna á íslenzkum landbúnaðarafurðum, svo að hún nægi nákvæmlega fyrir þörfum landsmanna. Ég býst við, að ef það á að takast, verði að grípa til annarra ráða en hingað til hefur verið beitt. En vegna takmarkana á mörkuðum þeim, sem Íslendingar hafa átt aðgang að áður, og vegna þess, að líkur eru til, að slátrun verði með meira móti í haust, má búast við því, að ekki verði markaður fyrir alla kjötframleiðsluna innanlands. Um þetta er reyndar ekkert hægt að fullyrða, en það verður að gera ráð fyrir því og setja þá undir lekann. Þeirri spurningu hv. þm., hvort verðjöfnunargjaldið falli niður, ef þetta verður samþ., svara ég játandi. En hinni spurningu hans getur hv. 1. þm. N.-M. (PZ) betur svarað en ég. Loks vil ég taka það fram, að ég get fallizt á till. hv. þm. Borgf. um það, að málið verði látið ganga fram án þess að fara til nefndar.