28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (937)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Páll Zóphóníasson:

Út af fyrirspurn hv. þm. Barð. skal ég geta þess, að árið 1940 var verðjöfnunargjaldið 10 aurar á kg, og voru 8 aurar endurgreiddir til bænda, en hitt fór að mestu til þess að verðbæta saltkjöt. 50 þús. kr. voru látnar vera eftir í verðjöfnunarsjóðinum til þess að mæta skakkaföllum, sem nokkrir saltkjötsútflytjendur urðu fyrir, er Noregur var hernuminn, en þeir áttu þar nokkuð af kjöti, sem ekki er vitað, hvað orðið hefur af. Afgangi sjóðsins hefur ekki verið ráðstafað enn þá, því að ætlazt hefur verið til, að hann yrði notaður til greiðslu á kostnaði við að koma kjöti til frystingar. Það var ákveðið að flytja ekkert kjöt út úr landinu, en vita heldur, hvort ekki væri hægt að selja það allt innan lands. En víða á landinu er aðstaða slík, að ekki er hægt að frysta kjötið á staðnum, og varð þá að flytja það þaðan á aðra staði til frystingar og flytja það svo aftur á upphaflega staðinn. Varð af þessu mikill aukakostnaður, og hefur verið farið fram á það, að ríkið tæki þátt í greiðslu hans, en hann nam sums staðar 40–50 aurum á kg. Er nú beðið eftir svari ríkisstj. við þessum tilmælum, og þess vegna er verðjöfnunarsjóðinum fyrir árið 1941 ekki nema að nokkru leyti ráðstafað.