31.08.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (940)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Mér þykir óviðunandi, að þessi till. gangi í gegnum þingið, eins og hún er orðuð og hugsuð. Ég á hér við fyrri hluta hennar, uppbætur á útflutt kjöt. Nú er kjötverðlagsnefnd einráð um verðið á innlendum markaði. Og þótt þessi leið væri farin, væri þó engin trygging fyrir því, að innanlandsverðið yrði ákveðið sanngjarnt fyrir alla aðila.

Nú er augljóst mál, að því hærra sem það verð er ákveðið, því minni verður neyzla kjöts í landinu, svo lengi sem menn hafa nokkuð annað að lifa á. Þetta er hliðstætt því, að lögboðið væri að greiða Dagsbrúnartaxta um land allt og síðan fengi Dagsbrún ein að ákveða, hver taxti sá yrði. Þetta er ófært skipulag. Það þarf einmitt að stuðla að sem mestri neyzlu kjöts í landinu, þótt ekki væri nema vegna erfiðra aðflutninga á matvælum.

Kjötverðið á vitanlega að ákveða svo hátt, að bændur geti vel við unað. En það virðist mjög hjákátlegt að greiða meðgjöf með matvælum, sem út eru flutt nú á tímum. Það væri öllu réttara að greiða með innanlandsneyzlunni. En í þessari till. er þetta þveröfugt. Annars er nauðsynlegt að taka öll verðlagsmál landbúnaðarins fastari tökum en verið hefur. Það er nú svo, að allir vilja í rauninni stöðva kapphlaupið milli kaupgjaldsins og verðlagsins í landinu. Nú er verið að leitast við að festa kaupgjaldið á þann hátt að semja við verkalýðinn um viðunandi kjör. Og þessir samningar eru gerðir með það fyrir augum, að þeir gildi helzt út stríðið. En nú þarf einnig að komast að samkomulagi við bændur á sama hátt, svo að þeir fái viðunandi verð fyrir afurðir sínar. Það er réttlátt. Síðan verði greidd full dýrtíðaruppbót ofan á samkomulagsverðið, eins og hún er á hverjum tíma. Ég leyfi mér því að flytja brtt. við upphaf þessarar till. og afhendi hana hæstv. forseta.