31.08.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (944)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Pétur Ottesen:

Ég get ekki skilið þessa brtt. á annan veg en þann, að með henni sé verið að leggja grundvöll að enn meiri afskiptum ríkisins af verðlagsmálum en við eigum nú við að búa. Það er vitanlegt, að bændur eru síður en svo einráðir um kjötverðlagið, heldur hefur ákvörðunarréttur þeirra í því efni verið af þeim tekinn og lagður í hendur stjórnskipaðrar nefndar, og mega bændur aðeins litlu ráða um skipun hennar. En hér virðist eiga að herða enn á hnútunum með þeirri brtt., er fram er komin, þar sem á að binda þá viðbót, sem hér er talað um, við það, að samkomulag náist um söluverðið innan lands. En það er ekkert ákveðið um það, við hverja eigi að semja. (BrB: Við kjötverðlagsnefnd.) Ég geri ráð fyrir, að það sé ætlun hv. þm. (BrB), að það eigi að semja við ríkisstj. um þetta, en um það er ekkert í brtt. Mér finnst þetta því allt mjög svo losaralegt. Og ég er alveg hissa á því, að slík till. skuli koma fram hjá þeim mönnum, sem barizt hafa harðast gegn því á Alþ., að nokkrar takmarkanir væru settar í sambandi við kaupgjaldið í landinu, heimtað það frjálst og fengið því áorkað með niðurfellingu gerðardómsl. Og þegar þessum „þrælatökum“, sem þessir menn kalla svo, er sleppt, þá vill þessi hv. þm. færa sig upp á skaftið og sverfa enn fastar að þeim, rýra ákvörðunarrétt þann, sem þeir nú hafa um verðlagið. Hann vill ekki láta sér nægja það, að valdið í þessum efnum sé af þeim tekið og lagt í hendur stjórnskipaðrar n., heldur vill hann herða enn meira á í þessu efni, þannig að ákvörðun þessarar n. sé því aðeins gild, að samkomulag um þetta sé gert. Það er sennilegast, að ríkisstj. eigi þá að semja við hann um þetta. En ríkisstj. hefur mest ráð í kjötverðlagsnefnd, þar sem hún kýs oddamann í n., sem er formaður n. Mér virðist þetta skjóta ákaflega skökku við, að slík brtt. sem þessi komi hér fram nú. Það eðlilega og það, sem samræmi hefði verið í, er, að þegar þau atriði gerðardómsins, sem snertu kaupgjaldið, voru afnumin, þá hefði kjötverðlagsnefnd líka verið afnumin um leið, a. m. k. að því er snerti ákvörðun á kjötverðinu, þ. e. a. s., að sá hluti af starfi hennar hefði verðið felldur niður, en að hún hefði starfað áfram að því að gera ýmsar ráðstafanir í sambandi við dreifingu kjötsins, undir þeim kringumstæðum, sem við búum nú við, að ekki eru til næg frystihús fyrir kjötið. En nú hefur ekkert verið fellt niður af starfi hennar, og kjötframleiðendur hafa ekki borið fram till. um það, þótt eðlilegast hefði verið, að þeir hefðu gert það, eins og ástatt er. En það er gefið, hvernig fulltrúar bænda munu taka slíku, þegar nú á að gera tilraun til þess að herða enn fastar á þessum ákvæðum. Meðan bændur höfðu einir í sínum höndum ákvörðun á verði kjötsins, urðu engir árekstrar milli þeirra og hinna, sem keyptu kjötið, þannig að forsaga þessa máls er sú, að það er engin hætta á því, að bændur krefjist meira verðs fyrir kjötið en þeim er nauðsynlegt að fá.

Það er því ekki hægt að finna ástæðu til að ætla, þó að þetta verði samþ., að verðið verði ákveðið hærra en hóflegt og nauðsynlegt er fyrir kjötið. En það er þó vitað, að kjötverðið hlýtur að hækka mjög verulega frá því, sem áður var, miðað við þá kaupgjaldshækkun, sem bændur hafa orðið að greiða, og aðrar erfiðar ástæður hjá þeim. Mér virðist, að rás viðburðanna muni fela það í sér, að svo litlu vinnuafli verði nú á að skipa á næstunni í sveitum, að líkindi séu til, að það muni mjög draga úr kjötframleiðslu og þá um leið skiljanlega afkomumöguleikum þjóðarinnar, sem felst í því bjargræði, sem framleitt er í sveitum landsins. Og svo mikil nauðsyn sem er á því undir venjulegum kringumstæðum, að haldið sé í horfinu framleiðslu landbúnaðarafurða, þá er, eins og sakir standa nú, þar sem miklar hættur eru á hafinu kringum landið, enn meiri þörf á að halda henni í horfinu. Mér virðist því, að slík till. sem þessi, sem fer fram á að draga enn meir en orðið er úr höndum bænda áhrifavald þeirra yfir því, hvað þeir fá fyrir sínar afurðir, — sem stefnir að samdrætti framleiðslunnar í sveitunum, sé, ef till. verður samþ., spor í þá átt, sem þjóðinni hlýtur að stafa mikil og alvarleg hætta af, þar sem aldrei hafa verið meiri hættur á siglingaleiðum að og frá landinu en einmitt nú.

Ég vil endurtaka það, sem drepið var á hér við fyrri umr. þessa máls, að það, sem farið er fram á í þessari þáltill., að tryggja bændum sama verð fyrir kjötið, sem út er flutt, og á innanlandsmarkaði er greitt, ef á annað borð þarf að flytja út kjöt. Það er alveg í samræmi við þá stefnu, sem strax var tekin upp hér eftir stríðsbyrjun og viðurkennd var þá af þeim samningsaðila, sem við áttum við, nefnilega Englendingum, að tryggja bæri með þeim samningum, að þeir framleiðendur í landinu, sem yrðu fyrir miklu skakkafalli af markaðstöpum vegna stríðsins, fengju bætt upp verð fyrir framleiðsluafurðir sínar í samræmi við það. Og það er eingöngu af því, sem gera þarf þessar ráðstafanir, að við getum ekki flutt kjöt nú nema til eins lands, Englands, þar sem verði á því hefur verið haldið niðri. Þess vegna er hér ekkert um að ræða annað en áframhald þeirra ráðstafana, sem leiddi af markaðstöpum af völdum styrjaldarástandsins. Þetta er það, sem felst í þessari þáltill., að því er snertir kjötið og líka að því er snertir ull og gærur. Þegar hlutur framleiðenda, sem fyrir markaðstöpum verða, varð ekki lengur að þessu leyti réttur með verzlunarsamningum við erlend ríki, tók Alþ. upp þráðinn og gerði nauðsynlegar ráðstafanir í þessu efni. Og þess er ekki langt að minnast, að á síðasta vori var samþ. till., sem var samhljóða þessari þáltill., sem fól í sér svipað efni og það, sem flutt er í þessari þáltill., sem hér liggur fyrir. Það þurfti hins vegar ekki til þess að taka að nota þau ákvæði um að borga verðmun á kjötframleiðslu síðasta árs, af því að kjötið seldist allt á innlendum markaði. Og það getur líka farið svo, að á þessu ári þurfi heldur ekki til slíks að taka, af sömu ástæðum. Það er ekki gert ráð fyrir því yfirleitt og heldur ekki ástæða til að ætla, að slátrun verði svo neinu nemi meiri á næsta hausti heldur en t. d. á síðasta hausti, m. a. af því, eins og kunnugt er, að sauðfjárpestir drepa árlega niður svo og svo mikið af sauðfjárstofni landsmanna. Það má hins vegar gera ráð fyrir, þrátt fyrir sæmilegt tíðarfar um sláttinn, að sökum fólksfæðar í sveitum verði ekki hægt að fá fólk til gripahirðingar á næsta vetri og þar vanti því vinnukraft, þá verði slátrun nokkru meiri af þeim ástæðum.

En ef hið ameríska setulið notaði, þótt ekki væri nema lítið eitt af kjöti okkar, þá eru ekki líkur til, að það þyrfti að flytja neitt af því út. — Og ég trúi heldur ekki, að það sé fjárhagsatriðið út af fyrir sig, sem hefur komið hv. 6. þm. Reykv. (BrB) til þess að bera fram þessa brtt., heldur hitt, að svipta bændur allri íhlutun um ákvörðun kjötverðsins. Það er langlíklegast, og ég hygg, að það sé bara það, sem fyrir þessum hv. þm. vakir. En þá kem ég aftur að því, sem ég tók fram í byrjun ræðu minnar, að það kemur ákaflega undarlega fyrir, að þegar sleppt er öllum tökum á kaupgjaldinu í landinu, þá skuli einn þeirra hv. þm., sem barizt hafa harðast fyrir því, koma með till. um að herða fjötrana að bændum meira um ákvörðun verðs á sínum afurðum. Í þessu tvennu er svo mikið ósamræmi sem frekast getur verið. Og þó að reynt sé að dulbúa þetta, þá er það þetta, sem skin út úr brtt. hv. 6. þm. Reykv., ef annars er hægt að lesa út úr henni nokkra meiningu. Ég vænti þess því, að eins og þessi þáltill. var samþ. gersamlega mótmælalaust til síðari umr., þá verði hún einnig við þessa síðari umr. samþ. endanlega frá Alþ. sem ályktun til ríkisstj.