31.08.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (945)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Haraldur Guðmundsson:

Ég ætlaði einmitt að spyrja hv. 6. þm. Reykv. (BrB) um það sama, sem hv. þm. Borgf. innti eftir, hvað meint væri með orðunum í niðurlagi brtt.: „enda náist samkomulag um söluverðið innan lands“. Að vísu skildist mér á ræðu hans, — og þykir mér það þó næstum fjarstæðukennd hugsun, — að ætlunin væri sú, að kjötverðlagsnefnd og ríkisstj, sem innir af hendi greiðslurnar, ef til kemur, semdu sín á milli um verðið. Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. (PO) segir, að það er næsta hlægilegt, að ríkisstj. þurfi að leita samninga við nefnd, sem hún að meiri hluta skipar. En það verður að horfast í augu við þær staðreyndir, að nefndarskipun þessi er með þeim endemum sem hún er. Við alþýðuflokksmenn höfum stöðugt reynt að fá þessu breytt. Við höfum margsinnis flutt tillögur um það að leggja allt verðlagseftirlitið í hendur einnar nefndar, sem þá einnig hefði með höndum ákvörðun á verðlagi allra landbúnaðarafurða. En því hefur ekki fengizt fram komið. Framsfl. og Sjálfstfl. hafa jafnan verið á móti þessu, og ég minnist þess ekki, að kommúnistar hafi reynt að fá þessu breytt. Og þó að þetta sé kyndugt háttarlag, að ríkisstj. skuli þurfa að semja við nefnd, sem hún ræður meiri hluta í, þá er það því miður ekki nema eðlileg afleiðing af þeim vinnubrögðum, sem illu heilli hafa verið höfð um þessi mál hér á hæstv. Alþ.

Um efni þingsályktunartill. vil ég segja það, að ég er sama sinnis og á síðasta ári um það. Ég álít fullkomlega fjarstæðu að vera að styrkja bændur til þess að flytja kjöt til Englands til þess að selja það svo þar á 1 krónu til 1½ krónu pr. kg, sem sé með fyrirstríðsverði, meðan kjöt er selt á 5 til 6 kr., eða hver veit hvað, hér á landi. Ég veit ekki, hvað menn hugsa sér, að kjötverðið verði í haust innan lands. En það liggur í augum uppi, að það er hið mesta óvit, sem hægt er að hugsa sér, að flytja matvæli út úr landinu og selja fyrir 1/5 eða 1/6 part af því, sem þau eru seld innan lands, en halda svo háu verði á þessum matvælum í landinu, að það hljóti að draga úr neyzlunni. Mér virðist, ef þetta væri gert, það vera svo augljóst sem nokkuð getur verið, að með því væri verið að fremja hina mestu heimsku, að það nálgaðist brjálæði, enda finnst mér á ræðu hv. þm. Borgf., að honum sé þetta ljóst. Hv. þm. var að tala um markaðstöp, sem við hefðum orðið fyrir. Þetta er að nokkru rétt, að því er snertir ull og gærur. En að því er kjötið snertir, er þetta rangt. Í staðinn fyrir að nota útlenda markaðinn, meðgjafarmarkaðinn, sem verðjöfnunarsjóður bætti upp með því að greiða uppbót á hvert kg útflutts kjöts, gátum við á síðast liðnu ári selt allt kjötið hér innan lands. Að gera, yfirleitt ráð fyrir því að flytja matvæli, kjöt, út úr landinu til að selja það þar fyrir örlítið brot af því verði, sem sama vara er seld fyrir innan lands, það er algerlega fráleitt. Það er hægt að skapa og auka útflutningsþörf fyrir kjöt með því að ákveða verðið fyrir kjötið innan lands svo hátt, að jafnvel sú mikla kaupgeta, sem til er í landinu, geti ekki samsvarað því. Og ég játa fullkomlega, að eins og kjötverðlagsnefnd er nú skipuð og hefur starfað, þá er þessi möguleiki ekki útilokaður. Rétta leiðin er að halda kjötverðinu svo lágu, að markaðurinn aukist innan lands, og nota heldur uppbótarféð í því skyni. Og því er brtt. hv. 6. þm. Reykv. (BrB), svo kyndug sem hún virðist, þó betri en þáltill. eins og hún er á þskj. 83.