20.08.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (957)

8. mál, úthlutun bifreiða

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég er hv. 1. flm. þakklátur fyrir þá umhyggju, sem hann og hv. meðflm. hans bera fyrir minni velferð, er þeir vilja losa mig við þann vanda, sem hv. þm. minntist á. En um þessa þáltill. er það að segja, að ég skal ekki amast við henni. Þó verð ég að geta þess, að nokkurrar vanþekkingar gætir í grg. till. og eins í ræðu hv. frsm. Hv. þm. segir, að úthlutunin sé að mestu leyti komin í hendur fjmrn., en ég veit ekki betur en n. hafi annazt úthlutunina alla tíð, síðan einkasalan var stofnuð, og var sá háttur ekki tekinn upp fyrst á síðasta hausti. Það er nú auðvitað sjálfsagt að fara eftir till. n., eftir því sem hægt er, en það verður að athuga, að hingað hafa ekki flutzt nærri því nógu margar bifreiðir til þess að fullnægja úthlutun hennar. Frá síðustu úthlutun n. eru liðnir 8 mánuðir, en á þessu tímabili hafa skapazt ýmsar þær aðstæður, sem n. gat ekki séð fyrir eða tekið til greina. T. d. má benda á það, að meira og meira af bifreiðakosti bifreiðastöðvanna hefur komizt í hendur setuliðsins, svo að mörg fyrirtæki hafa komizt í þrot með ökutæki, og verður ekki komizt hjá því að gera eitthvað við þessu. Því hefur reynzt nauðsynlegt að úthluta um 40 bifreiðum utan úthlutunar n. Sumum þessara bifreiða hefur verið úthlutað til opinberra framkvæmda svo sem vegagerða, þar sem mikil vandræði hefðu annars verið á framkvæmd nauðsynlegra starfa. Það má ef til vill segja, að rétt hefði, verið að kalla n. saman til þess að ákveða um þetta, en ég taldi þess ekki þörf. En þetta sýnir þann misskilning, sem fram kemur hjá hv. 1. flm.