20.08.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (958)

8. mál, úthlutun bifreiða

Einar Olgeirsson :

Ég ætla ekki að tefja umr. með því að fara að ræða bifreiðaúthlutunina, því að það yrði of langt mál, enda skiptir það mestu máli í þessu sambandi að finna réttláta aðferð til bifreiðaúthlutunar. Ég hef þess vegna borið fram till., þar sem gert er ráð fyrir, að bifreiðastjórar fái að ráða nokkru um úthlutunina. Mér finnst ekki nema sjálfsagt, ef skipa á þriggja manna n. til að annast úthlutun þessa, að bifreiðastjórar fái að ráða einum manninum í hana. Meðal bifreiðastjóra hefur, eins og kunnugt er, orðið vart allmikillar óánægju vegna úthlutunarinnar að undanförnu. Ég legg því til, að ríkisstj. skipi þriðja manninn í n. eftir tilnefningu bifreiðastjórafélagsins Hreyfils í Reykjavík, en varamaður þessa þriðja manns sé skipaður eftir tilnefningu Þróttar, félags vörubifreiðastjóra, svo að fulltrúi Hreyfils víki sæti fyrir fulltrúa Þróttar, þegar úthluta skal vörubifreiðum. Þá er í till. ákvæði um reglu þá, sem fylgja skal við úthlutunina, og er ætlazt til, að tveir þriðju hlutar þeirra fólksflutningabifreiða, sem inn eru fluttar, fari til atvinnubílstjóra eða bifreiðastöðva. Ég hef fyrir satt, að þessari reglu hafi verið fylgt áður, og er gott, að n. hafi eitthvað til að styðjast við í þessu efni.