01.09.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (968)

8. mál, úthlutun bifreiða

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér inn í þessar umr., en hv. þm. Barð. mælti hér nokkur orð, sem ég finn ástæðu til að leiðrétta. Hann gat þess, að hv. 2. þm. Skagf. (PHann) hefði mætt á fundi í forföllum eins nm., og mun hann þar eiga við mig. Ég skal fúslega viðurkenna, að á laugardaginn var þurfti ég að bregða mér úr bænum og bað þá hv. 2. þm. Skagf. að mæta. Ég gerði það sakir þess, að hann er góður og gegn maður og 2. flm. þessa máls, svo að ég tel það í alla staði ekki nema eðlilegt einmitt að óska eftir hans liðsinni í fjarveru minni. Og ég kann því illa, að hv. þm. skuli bera þennan mann brigzlum, þó að hann mætti þarna á nefndarfundi.

Hv. 2. þm. Skagf. mætti á tveimur fundum, en fyrir mig ekki nema á öðrum. Á síðari fundinum man ég, að honum og hv. þm. Barð. fóru nokkur orð á milli. Og ég vil beina því til hv. þm. Barð. — og að því mun þingheimur bera vitni nú —, hvort ekki sé rétt fyrir hann að gæta betur tungu sinnar, hvort heldur er á nefndarfundum eða á Alþ. Hitt ættu svo margir þm. fleiri en ég að geta borið um, hvort það er eitthvað sérstakt eða óvenjulegt, að þingn1enn komi á nefndarfundi, hvort sem er fyrir nm., sem eru í forföllum, eða sakir þess að n. hefur til meðferðar mál, sem þeir eru flm. að. Ég veit vitanlega ekki, hversu vel hv. þm. þekkir til vinnubragða á Alþ. og þingsöguna, en það ætla ég þó, að einhverjir kunni að finnast innan veggja þingsins, sem vita eins glögg deili á þessum hlutum og þessi hv. þm. Ég hygg, að bezt fari á því svona fyrsta kastið, að þessi hv. þm. felli ekki mjög harða dóma yfir störfum þingsins og vinnubrögðum þingmanna.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta mál. Hv. 1. flm. þess og fleiri hafa gert grein fyrir því, einnig frsm. áðan. Vil ég því ekki fara að ræða efni málsins og heldur ekki ummæli hv. þm. Barð., sem snerta þetta mál, en taka tillit til þess, sem hæstv. forseti sagði um þörf þess að ljúka sem fyrst afgreiðslu málsins.