11.08.1942
Efri deild: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég get tekið undir það, að tilgangslaust er að halda langar ræður um þetta mál við þessa umr. Ég get einnig tekið undir, að þetta mál er þannig vaxið, að því ber að hraða gegnum þingið. Ég fagna því í þeirri mynd, sem það er nú, þó að ég að sjálfsögðu sjái nauðsyn þess að gera á því breyt. til bóta. En ég læt þess getið, að það hefði ekki verið úr vegi, að stj. hefði látið það verða eitt af sínum fyrri verkum, eftir að hún tók við völdum, að afnema þessi l. með brbl. og koma svo til þingsins á eftir til að fá samþykki. Ég býst við, ef hún hefði hnigið að því ráði, að þá hefði á ýmsan hátt verið nokkuð annað upp á teningnum í vinnumálunum heldur en nú er. En hæstv. ríkisstj. hefur sennilega viljað þrauka til hins ýtrasta til þess að sjá, hvort vonir hennar um, að l. hefðu einhvern árangur, mundu ekki geta staðizt. Ég skal ekki fara út í það, að tilgangur l., að því er kaupið snertir, hefur algerlega verið brotinn. Og það er ekki meira en við Alþfl.-menn hér á Alþ. sögðum, ekki aðeins á Alþingi, heldur í byrjun þessa árs. Alþýðusamhandið sendi ríkisstj. ályktun 4. jan. Meðal annars segir í þeirri ályktun, að ef hnigið yrði að því ráði, sem þegar var farið að kvisast um, að binda kaup með lögum, þá mundi stj. spilla friði í landinu. Þetta var fyrsta aðvörunin. En þá var verkalýðurinn sennilega ekki nógu stórt númer í hennar augum til þess að taka viðvörunina til greina. Síðan gerðist það, að Alþfl. æ ofan í æ aðvaraði samstarfsmenn sína í ríkisstj. um, að háskalegt væri að ganga inn á þá braut, sem gengið var. Á þetta benti hann með fullum rökum og til hvers þetta mundi leiða. Og allt er þetta komið á daginn. Þetta var ekki gert af óþjóðhollustu. Þetta var gert af fullkominni einlægni til þess að halda uppi því jafnvægi þjóðfélagsins, sem nauðsynlegt er á tímum sem þessum, þegar alls ekki má skapast stríð milli stétta.

Nú þýðir ekki að sakast um orðinn hlut, segja menn. Við, sem andmæltum þessu frv. á síðasta þingi, vorum búnir að sannfæra þm. um, að 1. væru ekkert annað en pappírsgagn. Og þeir voru sjö, segi og skrifa sjö, sem höfðu þrek til þess að gera þessi l. að nafninu til gildandi. En betur hefði farið, hefðu l. þessi fengið að sofna sínum réttláta svefni, og mundi þá horfa öðruvísi við en nú. En það er óhætt að segja, að enginn hefur háð jafnskelegga baráttu gegn þessum l. eins og Alþfl. Hann hefur haft forustuna í að benda á hætturnar með rökum. (Rödd af þingbekkjum: Voru ekki bandamenn?) Engir bandamenn voru um það að sýna alþm. og þjóðinni fram á það með rökum, hve þjóðhættuleg þessi ákvæði voru, og við getum verið ánægðir með afstöðu okkar í þessu máli frá upphafi, þar eð nú eru allir flokkar orðnir sammála um að afnema þessi l., nema fyrrv. forsrh., sem virðist enn þá eiga einhverja taug til þessa óskapnaðar. Við hann hefði verið ástæða að tala nokkur orð, en mér er óljúft að tala yfir auðum stól hans, og einnig fæ ég þess kost í nefndinni.

Það hefur réttilega verið bent á það, að um leið og kaupfestingarákvæðið er tekið úr l., þá er mikill þorri verklýðsfélaganna bundinn með samningum um allt, sem heitir grunnkaup, a. m. k. til áramóta, og sennilega nokkur félög öllu lengur. Það er því nauðsynlegt að setja ákvæði inn í þetta frv., sem veitir verkalýðsfélögunum heimild til þess að segja upp slíkum samningum með einhverjum ákveðnum fyrirvara, sem ekki má vera mjög langur, svo að þau geti tekið til fljótrar athugunar þær breyt., sem nauðsyn ber til að gera, og til þess að skapa samræmi milli hinna ýmsu starfshópa og starfsstétta. Ég mun því beita mér fyrir því, að meðnm. mínir taki slíka till. inn í frv. Ég hef ekki rætt við þá og skal ekki að óreyndu segja, hvaða undirtektir það fær. En ég gæti búizt við eftir ummælum hæstv. atvmrh., þó að hann að sjálfsögðu gæti ekki gefið ákveðin svör við fyrirspurn hv. þm. Seyðf., að þess megi vænta, að flokkur hans veiti þessari till. brautargengi. Með því að ég tel nauðsynlegt að hraða málinu gegnum þingið, er eiginlega óþarfi að halda lengri líkræðu en orðið er yfir þessum ákvæðum, sem búin eru að lifa sitt fegursta og eiginlega dottin úr sögunni.