11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (990)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Haraldur Guðmundsson:

Ég get tekið undir mál hv. 1. þm. S.-M., að ástandið í strandferðamálum okkar er allsendis óviðunandi og þá sérstaklega hvað Austfirði snertir. Fyrir stríð fengu Austfirðingar mikið af vörum beint frá útlöndum bæði með skipum Bergenska félagsins og einnig hafði Eimskipafélag Íslands eitt skip, sem kom upp að Austurlandinu. Nú eru þessar ferðir bæði Bergenska fél. og Eimskipafélagsins úr sögunni af eðlilegum ástæðum, og erfiðleikarnir með flutninga eru nú mjög miklir til þessara hafna. Innflutningur vara til Rvíkur hafur aukizt allmikið, en svo strandar á að koma vörunum út um land. Síðan áætlun Esju var breytt, þannig að hún fer nú alltaf hraðferðir til Austfjarða, þá hefur það að vísu breytt miklu til batnaðar, enda þótt það sé alveg ófullnægjandi. Súðin fer nú oft til Norðurlandsins, en snýr oftast við á Þórshöfn í þeim ferðum, og tel ég það misráðið, því að ólíkt betra væri, ef hún sneri eigi við fyrr en á Seyðisfirði eða Reyðarfirði. En þrátt fyrir það, þótt þessu væri breytt, þá þarf samt undir öllum kringumstæðum viðbótarskip í strandferðirnar.

Eitt vildi ég sérstaklega benda á í þessu sambandi, en það er, hvort ekki mundi borga sig að senda sérstakan bát til Hornafjarðar með vörur, svo að strandferðaskipin losnuðu við að koma þar, því að bæði er mikil töf í að fara þangað inn að ógleymdri þeirri miklu áhættu, sem fylgir innsiglingunni í fjörðinn. Sem sagt, þá er ástandið í strandferðum til Austfjarða mjög slæmt, og get ég þar minnzt á, að í vetur. liðu einu sinni 6–8 vikur svo, að ekki kom póstur til Austfjarða frá Rvík.

Ég er því alveg fylgjandi þessari till. til þá l. og vænti þess, að úr þessu verði bætt hið fyrsta, og það ætti að takast, því að skipakostur er til í þessar ferðir, ef reynt er.