11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (991)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Ég hef ekki margt um þessa till. að segja, en get tekið undir það með hv. 1. flm. og hv. þm. Seyðf., að miklir erfiðleikar séu með þessar strandferðir, en það liggur í augum uppi, að til þessa mundi reka. Bæði norsku ferðirnar og ferðir eimskipafélags-skipanna eru að mestu úr sögunni, en þó hefur verið reynt að láta skip fara við og við á smáhafnirnar með byggingarefni o. fl. Mér virtist af orðum hv. þm. Seyðf., að Austfirðirnir væru verst settir, hvað þetta snerti, en þó að þeir séu illa settir, þá má ekki gleyma Vestfjörðunum, sem eigi hafa síður orðið út undan, hvað strandferðir snertir.

Ég hef rætt þetta mál við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, og hann hefur tjáð mér, að af hálfu skipaútgerðarinnar væri allt hugsanlegt gert til þess að ná í báta og skip, sem gætu farið þessar ferðir. Örðugleikarnir við útvegun skipakosts í þessu skyni stafa að allverulegu leyti frá setuliðunum, og er þar um hættulega keppinauta að ræða, sökum þess hve þeir borga vel skipum og bátum, er sigla í þeirra þjónustu. Ég hygg, að úr þessu mætti mikið bæta, ef reynt væri að komast að samkomulagi við Eimskipafélag Íslands um ferðir út um land, t. d. með því að eimskipafélagsskipin væru látin fara í strandferðir, meðan þau bíða afgreiðslu hér í Rvík, en eins og kunnugt er, þá eru oft erfiðleikar á afgreiðslu skipanna, eftir að þau koma að utan og áður en þau fara út.

Eins og ég drap á áðan, þá hefur margt verið reynt til þess að bæta úr þessari brýnu þörf. meðal annars hefur verið reynt að fá skip frá útlöndum og leitað tilboða, og að vísu hafa borizt tilboð, sem hafa orkað tvímælis, en þó hefur nú verið fest leiga á einu litlu ensku skipi, sem að vísu er gangtregt, en þó er ekkert á móti því að gera þessa tilraun til bóta.

Ég mun ekki fjölyrða um þetta frekar, en eitt er víst, að hvort sem þessi till. verður afgr. eða eigi, þá verður haldið áfram tilraunum, svo að þetta megi komast í viðunanlegt horf, en á þessum tímum verða menn óhjákvæmilega að búa við verri flutninga en ella. Vegasambandið bætir mikið úr víða, en ýmsir landshlutar verða þó út undan, og tel ég Vestfirðina standa einna verst að vígi.