11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (995)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Þetta er nú fyrri umr. um þessa þáltill. og ekki ástæða til að lengja hana meira en orðið er, heldur vísa málinu til, n., og skal ég vera hér stuttorður.

Hv. 1. flm. gerði að umræðu ástandið hér á höfninni og spurði kunnuglega, sem ekki er að furða. Hann hefur verið í ríkisstj., sem hefur haft með þessi mál að gera, og því nálgast það að vera dálítið broslegt, þegar hann snýr sér með mesta sakleysissvip að mér, sem hef haft þessi mál til meðferðar í 2½ mánuð, og segir, að nú þurfi fyrir öllu að sjá og öllu að kippa í lag. Ég þakka hv. þm. fyrir þetta mikla traust til minna hæfileika til að vinna það verkefni á stuttum tíma, sem hann hefur séð, að gat þvælzt fyrir manni nokkuð lengi. Ég vil segja honum þær fréttir, síðan hann fór að heiman, að það hefur verið haldið áfram nákvæmlega eins og þegar hann var að þrúkka við setuliðið um það að rýma til í höfninni, greiða fyrir mannvirkjum þar, ef til vill byggja bryggjur eða annað þess konar, en engin veruleg niðurstaða hefur fengizt. Og tafirnar eru svipaðar og þær voru. En ég vil upplýsa fyrir hv. þm., að hin slæma útkoma á skipagöngum er náttúrlega ekki nema að ákaflega litlu leyti af þessu. Það er ekki hægt að setja það í samband við þetta, að skip Eimskipafélags Íslands komast nú fjórar ferðir á ári í staðinn fyrir a. m. k. 6 áður. Það, sem veldur, er, að skipin verða eingöngu að sigla undir herskipafylgd, og verða þau oft að bíða langan tíma eftir þeirri fylgd, sem þeim hæfir. Það er mikill misskilningur, ef menn halda, að hvert skip geti siglt í fyrstu fylgd, sem í boði er. Nái skipið ekki ákveðinni ferð, t. d. 16 mílum, getur það vel orðið að bíða eftir 9 mílna skipum, þó að það hafi 12–13 mílna ferð. En tafirnar hér í höfninni eru mjög svipaðar og þær voru. Ég skal játa, þótt ég slægi því fram áðan, að leitt væri að geta ekki notað tafatímann við höfnina til þess að bregða vörunum út um landið, þá sé ég ákaflega litla von til þess. Fyrst og fremst munum við verða að leggja áherzlu á að ná vörunum til landsins sem tafarminnst. Og afgreiðslan úti um landið gengur ekki heldur með flugferð nú. Einn þm. sagði mér, að hann hefði nýlega verið á ferð kringum landið og hefði ofboðið seinagangurinn á afgreiðslunni. Sums staðar er ekkert fólk að fá nema unglinga og næstum börn. Það er ekki fýsilegt að láta dýr skip bíða lengi eftir afgreiðslu hér og þar vegna fólksleysis, og er þetta líka atriði í málinu.

Ég held mér sé óhætt að segja, að Skipaútgerð ríkisins geri allt, sem hún getur, til að ná í skip og dreifa vörunum um landið. Ég hef mett hvað eftir annað við forstjóra hennar og getað gengið úr skugga um þetta, þó að ég sé ekki kunnáttumaður á þessu sviði. Ég veit ekki, hvort skipaútgerðin gæti fengið fleiri skip með því að ausa út enn meira fé. En það hefur verið gerð sú krafa, að þessir flutningar væru reknir þannig, að sem minnst yrði hækkað verð varanna, og það er líka atriði. Það er hægt að segja, að taka skuli alla báta. En þá þarf líka heimild til þess. Að vísu er víðtæk heimild fyrir ríkisstj. á slíkum tímum, en þyrfti þó frekari heimild til að ausa fé út til að taka báta og skip. Ég vil segja sem dæmi um kostnaðinn, að til báts var veitt 5 þús. kr. og fjvn. lagði til 10 þús. kr. Þegar málið kom til mín, varð ég að úrskurða, að til þess að báturinn færi af stað, yrði að veita 20 þús. kr. Svona er kostnaðurinn orðinn gífurlegur. Það þarf meira en að segja það, að taka báta og taka skip og sigla til Hornafjarðar og Vestfjarða. Tekjurnar eru næstum hverfandi, en bein útgjöld fyrir ríkissjóð, — sem ekki eru teljandi eftir. En samt sem áður er rétt, að Alþ. taki ákvarðanir um málið, og mun líka verða tekið til meðferðar við næstu fjárl. Það er staðreynd, að það hefur enn þrengzt um skipakost, eins og skýrt hefur verið frá, þar sem Bandaríkjastjórn dregur enn að sér höndina um flutningaskip. En ég vil segja, að það eru engin stór umskipti, a. m. k. síðan ég tók við ráðh.embætti hafa alltaf verið örðugleikar á skipum, og hvert skip hefur verið skoðað eins og jólagjöf, svo glaðir hafa menn orðið yfir skipafregnum. En það hefur nú verið tilkynnt, að ekki sé von á að fá nema þau þrjú leiguskip, sem hafa verið nokkurn veginn föst, en hingað til hefur verið hægt að ná í skip auk þess við og við. Í morgun lét ég senda skeyti til sendiherrans, þar sem lýst er ástandinu hér og þörfinni á að reyna til hins ýtrasta að fá skip. Ég veit ekki, hvort ástandið er miklu svartara en það var, en vissulega sortnar það dálítið. Og það er bezt að horfast í augu við sannleikann, að það getur komið fyrir allt í einu, að við fáum ekkert skip — og kannske ekki okkar eigin — til að sigla á milli. Maður heyrir og les um annað eins á ófriðartímum og það, þegar stórar innrásir kunna að vera yfirvofandi. Þegar stórþjóðirnar þurfa að koma milljónaherjum yfir höfin, þá er ekki verið að spyrja um prívatþarfir hinna og þessara, þá er allt, sem á sjónum flýtur, tekið, ef hönd festir á. Það er þess vegna, sem gerð hefur verið svo rík tilraun til þess að birgja landið upp að nauðsynlegustu vörum. Og ég vil segja í sambandi við þá till., sem rædd hefur verið hér á undan, um að afla fóðurbirgða, að það mál hefur verið athugað, en við verðum því miður að lúta þessum miklu erfiðleikum um flutning á því sem öðru milli landa.

Ég gat um það áðan, að nokkuð hefði verið leitazt við að safna í sérstök skip vörum, sem eiga að fara á hafnir kringum landið, og láta skipin fara rakleitt þangað. Þetta hefur létt ákaflega mikið undir. Og ég átti við það, hvort ekki mætti með samningi við Eimskipafélag Íslands gera þetta í ríkara mæli. Á hinn bóginn getur slíkt fyrirkomulag stundum tafið og ekki borgað sig.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Vestm. sagði um kaup á skipi, skal ég segja það, eins og ég gat um áðan, að leigt var frá Englandi smáskip með óaðgengilegum kjörum, en var þó mikilsvarðandi viðauki við þau skip, sem fyrir voru. Síðan var gefinn kostur á skipi til kaups. Ég hef ekki fyrir framan mig lýsingu á þessu skipi, en það átti að lesta eitthvað svipað og gamla Esja, að því er forstjóri skipaútgerðarinnar sagði, og þessi tegund skipa er hér mjög kunn. Skipið átti að kosta að mig minnir 200 þúsund dollara, liggjandi í Venezuela. Fyrir tilmæli mín litu svo tveir menn á þetta tilboð, annar vanur skipakaupum og hinn með mikla fagþekkingu. Þeir sögðu á skipinu kost og löst. Og forstjóri skipaútgerðarinnar sagði, að ef hann ætti kost , á að skoða skipið og væri ánægður með það, þá legði hann eindregið með að kaupa það, en þar eð hann ætti þess engan kost að fara og skoða skipið eða láta framkvæma þá skoðun, sem hann gæti treyst, þá gæti hann engan veginn haldið fram, að skipið bæri að kaupa. Nú var þessu tilboði samt sem áður haldið opnu og óskað eftir, að skoða mætti skipið í New York.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að mér fannst aldrei í raun og veru víst, hvort þetta skip fengist. Það var á markaðnum, en það þarf alls konar leyfi og pappíra til að mega selja skip úr landi, og málið komst aldrei svo langt, að sannprófað væri, hvort skipið fengist eða ekki, þegar til kæmi. Það hefur stundum verið gengið að slíkum tilboðum, en skipin ekki fengist, þegar til kom, en vantað ýmsa pappíra og leyfi. Ég veit ekki betur en þetta tilboð sé opið enn, en mér hefur ekki verið ráðlagt af neinum að taka því, nema skipið fengist afhent gegnum skoðun í New York, en tilboð hefur ekki fengizt um það. Á þessu margnefnda skipi er ekkert farþegarúm til, það yrði að kosta stórlega upp á það. Yfirleitt held ég, að mönnum komi saman um, að þegar búið væri að setja það í stand og sigla því hingað, kosti það um 2 millj. kr. Og þó að ég skrifi fullkomlega undir það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að nú má ekki reikna allt í krónum og það verði að höndla fljótt, þá veit ég, að í orðum sums fólst þó ekki það, að við eigum að kaupa í vitleysu, — að það, sem keypt er dýrt, sé kannske ekki nothæft. Því að tvær milljónir eru líka peningur, sem verja má til ýmislegs í ekki stærra þjóðfélagi en okkar.

Ég sló upp á því, hvort ekki væri hægt að láta mann fljúga til Venezuela og skoða skipið. Það var ekki frekar um það rætt. En í rauninni efast ég um, að það hafi verið á markaðnum. Það vekur grunsemd hjá leikmanni, að skipið liggur svo lengi óhreyft á þessum tíma, eins og hamagangurinn er í veröldinni að ná í hvert skip, sem flýtur.

Að endingu þetta: Það er rétt, að hv. þm. geri sér það ljóst, ef á að bæta stórlega úr þeirri þörf, sem um er að ræða, þá kostar það alveg stórfé, án þess að ég hvetji neitt til aurareiknings í þessu efni. Þó að það sé ekki nema lítið skip eins og Þór, sem er gott að hafa í Vestmannaeyjaferðum og öðrum slíkum, þá er ómögulegt að neita að það er dýrt. Það er eitt af því, sem gerir það að verkum, að ég herti frekar á að reyna til hins ýtrasta, hvort ekki væri fært að kaupa þetta skip, að það gæti leyst Þór af hólmi, því að þann ágóða mætti hafa til þess að borga niður og uppihalda einhverju af þessum ferðum. — En ég vil ekki fjölyrða að svo komnu, því að málið á að ræðast í n.