17.08.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (999)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Till. sú, sem fyrir liggur, er í rauninni um framkvæmdaratriði Skipaútgerðar ríkisins og hefði ekki átt að þurfa að koma fyrir þingið, nema tilætlunin sé að marka nýja stefnu í þessum málum. Það hefur verið venja, að skipaútgerðin hefur haft mjög lítið vald til að ráða fram úr því, sem til kostnaðar horfir, og er þess vegna leitað samþykkis Alþ. fyrir útgjöldum til strandferðanna, þótt ekki sé nema um sjálfsagðan og óhjákvæmilegan kostnað að ræða. Í þessari till. er gert ráð fyrir, að skip séu tekin leigunámi. Svo framarlega sem skipaútgerðin vill greiða jafnt fyrir skipin og aðrir leigjendur mundu greiða, á ekki að þurfa neitt leigunám, og þá sérstaklega nú, eftir að hin minni skip eru hætt Englandssiglingum. Það er því enginn vandi að útvega skip til þessa á þessu hausti, nema því aðeins, að skipaútgerðinni sé það skilyrði sett að greiða minna fyrir þau en greitt yrði á opnum markaði til annarrar notkunar. Ég fæ því ekki séð, hvers vegna Alþ. nú ætti að fara inn á þá braut og hvort það yfirleitt er æskilegt og rétt að skattleggja þannig sérstaklega þá, sem fyrir því yrðu, að skip þeirra væru tekin leigunámi, svipta þá ekki aðeins umráðarétti, heldur og tekjum um leið, meðan frjá1sa leiðin er fær, og það er hún enn sem komið er.

Á strandferðum þeim, sem um ræðir í till., er mjög mikil nauðsyn, sérstaklega um ýmsa firði og flóa vestan lands, enda liggur fyrir þinginu þáltill. um þau mál í héruðunum kringum Breiðafjörð. En í sambandi við umr., sem hér hafa orðið inn vöntun hentugra skipa, vildi ég benda á tvö skip, sem hafa verið í slíkum ferðum og eru tilvalin til þeirra, og mundi vera auðvelt fyrir ríkisútgerðina að tryggja sér þau með samningum.

Að hér sé um nauðsynjumál að ræða, leikur enginn vafi á, og er gleðilegt að sjá í grg. till., að hv. 1. þm. S.-M. (EystJ) hefur nú loksins séð það. Hins vegar skýtur það nokkuð skökku við framkomu hans í þeim málum, meðan hann var fjmrh. og síðan viðskmrh. á undanförnum árum. Allt frá því árið 1933 vorum við nokkrir áhugamenn stöðugt að sækja um innflutningsleyfi fyrir skipum, og enginn maður barðist eins harkalega gegn öllum tilraunum til að auka íslenzka flotann og hv. 1. þm. S.-M. Við urðum að brjóta svo að segja öll landslög til þess að geta komið hér inn ágætu skipi, sem færir nú Íslendingum brauð og björg. Og enn í maí 1939, þegar viðurkennt var, m. a. með myndun þjóðstjórnar, að miklar líkur væru fyrir því, að styrjöld mundi skella yfir þá og þegar og aðflutningar torveldast, sækjum við um innflutningsleyfi á skipi, en því var neitað fyrir afskipti hv. 1. þm. S.-M., svo að Ísland er einu skipi fátækara fyrir það. Í des. 1940 er enn sótt um innflutning á tveimur skipum frá Ameríku 400 og 3200 smálesta, báðum með mjög glæsilegu verði, og því var einnig neitað fyrir afskipti sama manns. Gleðilegt, ef hugarfar hans hefur breytzt svo, að orð hans í grg. séu annað og meira en það, sem hann heldur, að hljómi Sunnmýlingakjósendum vel í eyrum. Við því hefði margur ekki búizt af mönnunum, sem réðu því, að Óðinn var sama sem gefinn úr landi og Esja seld fyrir lágt verð, eftir að miklu fé hafði verið eytt í að setja í hana nýja katla, en það var skipið, sem Íslendingum hafði reynzt hagkvæmast og þeim þótti vænst um, þeirra skipa, sem hér hafa verið í strandferðum. Ég held, að ekki sé hægt að meta í milljónum, heldur tugmilljónum það tjón, sem þessi hv. þm. hefur valdið landinu með stefnu sinni, miðað við það, ef fylgt hefði verið stefnu hinna framsýnu manna. Út af ummælum, sem fallið hafa hér í Sþ. um kaup á skipi, sem boðið var stjórninni og átti að vera líkt og Esja og ég var beðinn að líta á, vil ég taka fram, að það reyndist allt annað en Esja. Hún er 175 fet á l., 30 fet á br. og 18 á dýpt. Það var 125 fet á l., 24 fet á br. og 10 á dýpt eða raunverulega sams konar skip og Laxfoss, — nema það hafði ekkert til að bera, sem aðlaðandi mætti teljast annað en sjálfan skrokkinn. Með sinni veiku vél, sem aðeins var 300 ha., hefði það í vondum sjó og veðri ekki komizt fyrir annes nema með mestu herkjum. Ef menn sjá eftir því skipi, sýnast fallnar burtu ástæður, sem einu sinni þóttu vera, til að finna að kaupunum á Laxfossi fyrir opinbert og einstakra manna fé.

Hvað viðvíkur því, hvort rétt hafi verið að hverfa aftur frá því að breyta Súðinni í mótorskip, þá er mér kunnugt um, að eftir að forstjóri skipaútgerðarinnar gerði áætlun um kostnaðinn, lét ráðuneytið athuga þetta mál mjög gaumgæfilega af tveimur öðrum aðilum, sem báðir höfðu sérþekkingu á þessu sviði. Liggur fyrir nákvæm kostnaðaráætlun þeirra um þetta, og samkvæmt henni mun nauðsynleg breyting ekki kosta 500 þús. kr., eins og forstjóri Skipaútgerðar ríkisins sagði stj., heldur 1717764 kr., miðað við verðlag í okt. 1941. Þá er einnig gert ráð fyrir því í álitinu, að það muni taka 18 mánuði að koma vélunum fyrir og 8 mánuði að gera breytinguna sjálfa. Það gat því ekki leyst flutningaþörfina, þó að þetta skip yrði tekið úr ferðum og látið liggja uppi í 8 mánuði eða öllu heldur 18, þar sem enn fremur var vitanlegt, að breytingin mundi í rauninni ekki kosta 1.7 millj. kr., heldur 2.5 millj. kr., svo sem allt hefur hækkað nú að undanförnu. Er augljóst, að ekkert vit hefði verið í því fyrir ríkissjóð að leggja of fjár í viðgerð á skipi, sem hefði svo aldrei getað orðið sæmilegt skip að viðgerðinni lokinni. En ég tel, að það gæti verið athugunarefni fyrir hæstv. ríkisstj., hvort ekki er hægt að komast að samningum við Eimskipafélagið um kaup eða leigu á öðru þeirra skipa (Selfossi eða Lagarfossi), sem bæði eru óhentug til millilandaferða, en eru a. m. k. hentugri til strandferða hér við land, ef hægt yrði að afla félaginu í staðinn skipakosts frá útlöndum.