09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Ég skal taka til athugunar það, sem komið hefur hér fram, og í öðru lagi vil ég bæta því við, að þótt ég gerði þessa fyrirspurn um Gylfaginningu, þá er langt frá, að ég telji réttmæt þau l., sem hér er um að ræða, og ég geri ráð fyrir, að borið verði fram frv. hér á þingi um, að þau verði afnumin.

fjmrh. (Jakob Möller): Það var á fundi í þessari hv. d. s.l. miðvikudag, að hv. 7. landsk. gerði tvær munnlegar fyrirspurnir til stj. Ég var fjarstaddur og gat því ekki svarað.

Aðalfyrirspurnin hefur nú verið tekin hér upp á dagskrána og mun því verða rædd, , er þar að kemur. Hinni vildi ég nú gjarnan fá tækifæri til að svara. Sú er um útgáfu Gylfaginningar. Spurningin er um það, hvort dómsmrn. sé kunnugt, hvort komin sé út á vegum Ísafoldarprentsmiðju Gylfaginning, og upplýst hefur verið hér í hv. d., að bókin hafi verið gefin út án leyfis ríkisstj. og því gagnstætt l. um útgáfu slíkra rita. Og eðlilegt er því, að fyrirspurn komi um það, hvort sama gildi um útgáfu þess rits og um útgáfu Hrafnkötlu, sem höfðað var mál út af fyrr á árinu.

Málið hefur ekki verið athugað ýtarlega að svo stöddu. En ég álít, að það hljóti að vera ákaflega svipuðu máli að gegna um útgáfu þessara tveggja rita. Hins vegar er svo ástatt, að það er, eins og kunnugt er, nokkuð um það deilt, hvernig endanlegur dómur muni falla út af Hrafnkötlu. Því máli var áfrýjað til hæstaréttar, en dómur þar er ekki fallinn. Það þykir því eðlilegt að fresta aðgerðum í síðara málinu, þangað til dómur er fallinn í því fyrra, því að ég lit svo á að svo stöddu, að þar sé svipuðu máli að gegna. Bæði ritin eru gefin út án þess að leitað hafi verið heimildar til þess hjá ráðuneytinu; það álit ég, að sé höfuðatriðið.

Úr því að ég tók til máls út af þessu máli, og þó að hin fyrirspurnin snerti að vísu — a.m.k. í einu tilliti — meira verksvið forsrh., vil ég vekja athygli á því, að þó að það sé vafalaust, að ríkisstjóri eigi að njóta verndar gegn aðkasti í blöðum, þá er hitt einnig víst, að eins og stjskr. mælir fyrir, að konungurinn og þá líka ríkisstjórinn sé friðheilagur, þá er það einnig svo um þm., meðan þeir eiga sæti á Alþ. Það er ekki heimilt að höfða mál gegn þm., meðan þeir eru á Alþ. Þess vegna er þessi fyrirspurn ekki alls kostar tímabær.