12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Pétur Magnússon:

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að tími sá, sem við höfum til starfa, er stuttur. Þó er það bót í máli, að fjhn. þessarar hv. d. hefur tekið allmikinn þátt í athugun málsins. Hins vegar er ég ekki hv. þm. samþ. um það, að hv. d. verði að gera annað af tvennu, samþ. frv. í aðalatriðum eða fella það. Ég sé ekki betur en henni sé skylt að gera þær brtt., sem henni þykir eðlilegar, og láta málið ganga til hv. Nd. aftur, ef þörf gerist. Nýtt þing kemur saman innan skamms, og þó að bezt væri reyndar, að málið næði afgreiðslu á þessu þingi, má segja, að ekki skipti miklu máli, hvort svo verður eða afgreiðsla tekst snemma á næsta þingi.

Í fjhn. var um það talað, að rétt væri að takmarka sem mest ræðuhöld við þessa 1. umr., og mun ég haga mér þar eftir. Ég þarf ekki að minna á, að við kosningarnar í haust var talið, að það hlyti að verða aðalverkefni þessa þings að kveða niður verðbólguna, og hæstv. ríkisstj. lýsti þessu einnig sem aðalverkefni sínu, þegar hún tók við embætti. Allir vita, hvernig þetta hefur gengið. Frá því er þing kom saman, hefur það verið að berjast við þetta beinlínis eða óbeinlínis. Í frv. því, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram í febrúarmánuði síðastliðnum, var lögð áherzla á það að færa niður dýrtíðina með því að lækka kaup og lækka jafnframt verð á innlendum landbúnaðarafurðum. Það má segja, að hið upphaflega frv. hæstv. ríkisstj. hafi miðazt beinlínis að því að lækka dýrtíðina, en hið sama verður naumast sagt um þetta frv. Sú vísitölulækkun, sem kemur til greina samkv. 4. gr., er bundin því skilyrði, að samkomulag náist um jafnvægi kaupgjalds og verðlags, og einu ákvæðin, sem miðast beinlínis að lækkun dýrtíðarinnar, ákvæði 5. gr., eru aðeins bráðabirgðaákvæði og háð því skilyrði, að sú verðlagsákvörðun, sem gert er ráð fyrir í 4. gr., takist. Það er raunar tilgangslaust að vera með spádóma um það, hvort þessi tilraun, sem um ræðir í 4. gr., muni takast, en ég efast ekki um, að erfiðleikar þeir, sem orðið hafa á samkomulagi hér á Alþ., eiga rætur að rekja til þess, að viljinn til að lækka dýrtíðina er ekki mikill hjá þjóðinni. Ýmsar stéttir telja sig ekki hafa hag af því í svipinn, að dýrtíð lækki, þó að ég verði að telja þá skoðun að minnsta kosti nokkuð hæpna, því að þegar verðlag fer að færast aftur í það horf, sem áður var, verður undanhaldið því erfiðara sem verðbólgan er þá meiri, svo að mikinn ávinning verður að telja að fá hana lækkaða nú þegar.

En þar eð ekki tókst að fá samkomulag á Alþ. um beina lækkun dýrtíðarinnar, sýnist ekki önnur leið fær en þessi. 5. gr. frv. hefur sem sagt aðeins bráðabirgðaákvæði inni að halda. Þar er ætlazt til, að dýrtíðin verði lækkuð fljótlega að nokkru með því að greiða fé úr ríkissjóði. Slík aðferð orkar alltaf tvímælis og jafngildir því, að verið sé að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn. En þetta getur samt komið að nokkru gagni, og ef allt yrði látið afskiptalaust, gæti farið svo, að síldarútvegurinn stöðvaðist í sumar. En þegar sleppt er þessum tveim gr. og svo 1. gr., tel ég, að frv. orki mjög tvímælis. Ég tel t.d., að 7. gr. eigi ekki heima í þessu frv. Hún hefði átt að koma fram sem brtt. við skattal. Auk þess eru á henni tveir gallar, sem ég ætla þó ekki að ræða hér.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en aðeins taka það fram að síðustu, að ég tel 4. gr. frv. réttlæta, að það nái samþ., þó að þar sé aðeins um skilyrðisbundnar ráðstafanir til lækkunar dýrtíðinni að ræða.