12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Ég hef litið svo á, að við 1. umr. mundu verða mjög litlar umr. og málið ætti að fara til n. Ég vil aðeins lýsa yfir því, að allverulegar lagfæringar þarf að gera á frv., eins og það kemur frá Nd., þar sem því var spillt að mun við 3. umr. Orðalag 3. gr. er nú orðið vægast sagt miklu óviðkunnanlegra en samkomulag varð um í fjhn. og samþ. var við 2. umr. í Nd. Þar segir, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða að fengnu samkomulagi við félagssambönd launþega, að verðlagsuppbót skuli greidd eftir öðrum reglum en verklýðsfélögin hafa samið um. Það er gert ráð fyrir þeim möguleika, að t.d. Alþýðusambandið geti leyft að víkja þannig frá samningum, sem hin einstöku félög þess hafa gert og eru í fullu gildi, og að því leyfi fengnu er lögbinding leyfð. Að vísu er ég ekki í vafa um, að ekki getur komið til mála nein þvingun, eins og stjórn Alþýðusambandsins er nú skipuð, en ákvæðið er óviðkunnanlega orðað, þótt e.t.v. kæmi ekki núna að sök í praxís.

Þá er breyting í 5. gr. frv., þar sem ríkisstj. er heimilað að fengnu leyfi Búnaðarfélags Íslands að ákveða útsöluverð landbúnaðarafurða. En Búnaðarfélag Ísl. er ekki aðili þess máls og það af þrennum ástæðum. Það er ekki stéttarsamtök bænda, sem bera megi saman við verklýðsfélögin, hefur ekkert umboð bænda til að semja um afurðaverð þeirra eða “kaup“ þeirra, sem talað er um í þessu sambandi. Það hefur allt annað verkefni. Það er því gagnslaust að segja, að með þessu móti sé verið að tryggja, að reynt verði að ná frjálsu samkomulagi við bændur. Í öðru lagi þarf í raun og veru ekkert samkomulag við bændur um að lækka útsöluverð, þegar séð er um, að það valdi engri lækkun á útborgunarverði til þeirra. Í þriðja lagi er verðlagið ákveðið af stjórnskipuðum nefndum, raunverulega ákveðið af ríkisvaldinu, og ríkisvaldið hefur því fullan rétt til að breyta því, meðan þessu er ekki komið í það horf, sem ég teldi réttast, að verðlagið sé ákveðið með frjálsu samkomulagi aðila. Að því samkomulagi er stefnt með 4. gr. þessa frv. Nú mun einhver svara, að jafnvel þótt öll þessi rök væru rétt um þetta ákvæði, að samþykki Búnaðarfélags þurfi, muni ekki standa á því og þetta komi aldrei að sök. En satt að segja tel ég ekki víst, að þeir, sem fyrir Búnaðarfélaginu ráða, kærðu sig um að fallast á lækkun útsöluverðs, þótt bændum væri að fullu bætt fyrir, — þeir gætu talið það óhaganlegt verzlunarbragð fyrir framtíðina, kysu e.t.v. heldur óbreytt verðlag, þar til n. lyki störfum. Ég vil ekki spá þessu, þó að ég óttist það.

Samkv. 6. gr., eins og hún er nú, hefur alþýðusambandið enga íhlutun um, hvernig reglugerð tryggingarsjóðsins yrði. Ég tel mjög orka tvímælis, hv ort nokkurt samkomulag mundi þá nást við sambandið og ber þá að athuga, hvort nokkur ástæða sé til annars en afnema 3. gr. með öllu. Ég efast um, að samþ. hennar hafi nokkra þýðingu nú.

Ég get alveg fallizt á það, sem fram hefur komið í deildinni, m.a. hjá hv. 8. landsk., að í raun og veru skipti það samkomulag, sem 3. gr. miðar að, ekki ákaflega miklu máli. Verðlagið mundi vera hægt að lækka nokkuð mikið í maí án þess, með nægilega ströngum verðlagsákvörðunum.

Nú, þá er 7. gr. Það hefur verið að því vikið, að hún ætti ekki heima í þessu frv., að hún væri því óviðkomandi. Því er til að svara, að hún er því ekki fremur óviðkomandi en skattaákvæðin eru í frv. hv. stj. Ég er hv. 3. landsk. sammála um það, að eins og gengið hefur verið frá frv. fjhn., þá hafa vafasömustu skattaákvæðin verið tekin upp í l. gr. Ég tel því betra að hafa 7. gr. með og þá breyt. á skattalögunum, sem í henni felst.

Ég skal játa það, að viðkunnanlegra gat talizt að taka öll skattaákvæðin út úr og samþ. þau sem sérstök l., en til þess hefur ekki unnizt tími, og nú er nauðsynlegt að þetta frv. fái samþykki vegna skattaálaga fyrir 1942. Öðru máli er að gegna með eignaraukaskattinn. Til undirbúnings honum þarf lengri tíma.

En það gildir sama um 7. gr. eins og sumar aðrar greinar, að henni var spillt við 3. umr. í Nd., þar sem kveðið er á um, að fé því, sem aflast, skuli skipta til helminga milli raforkusjóðs og alþýðutrygginganna. Bæði mun þetta ekki verða til skiptanna, og svo orkar tvímælis að leggja fé í raforkusjóð, meðan rafmagnsmálin eru enn í því horfi, að aðeins liggja fyrir fráleitar till. þeirrar mþn., sem skipuð var í þeim málum. Ég tel því, að allt hefði átt að ganga til alþýðutrygginganna. Það er rangt, að dregið sé úr sjóðsmyndunum til eflingar fiskiflotanum samkv. 7. gr. Þvert á móti ber að leggja allt varasjóðstillag í nýbyggingarsjóð, til þess að varasjóðurinn geti notið skattfrelsis. M.ö.o., öll skattahlunnindin koma nýbyggingarsjóði til góða. Þannig er eftir frv. betur séð fyrir þessum málum en áður. Aðeins eru þau félög undantekin, sem eiga yfir eina milljón í nýbyggingarsjóði. Smærri útgerðarmenn fá meira skattfrjálst en áður, eða 1/3 fyrir 1/5. Hitt er annað, að ákvæði 7. gr. um breyt. á skattalögunum geta ekki orðið nema til bráðabirgða, en tilgangurinn með þeim er að koma til framkvæmda við álagningu skatts fyrir 1942.

Það verður áreiðanlega að breyta skattalögunum meira, því þótt skattfrelsi nýbyggingarsjóðs sé tryggt, þá er engin trygging fyrir því, eins og l. eru, að nýbyggingarsjóður geti ekki lent í taprekstri. Þetta þarf að tryggja fyrst, til þess að nýbyggingarsjóður verði að gagni, að hann verði notaður til nýbygginga eingöngu, en fyrir því er engin trygging í skattalögunum. Þessu þarf að breyta. Það þarf að koma í veg fyrir að fé, sem lagt er í nýbyggingarsjóð, geti orðið til að auðga einstaklinga, svo að þeir hagnist þannig af hinum óviðráðanlegu atvikum stríðsins.

Allt þetta eru atriði, sem þarf að taka til athugunar, og þessar breytingar eru svo aðkallandi, að þær verða að koma til framkvæmda á þessu ári. En fyrst þarf að breyta 7. gr. þannig, að ekki verði skipt til helminga milli alþýðutrygginganna og raforkusjóðs.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta meir að sinni, en býst við að taka aftur til máls, þegar málið kemur úr nefnd.