12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Ég vil í upphafi máls míns vita þá meðferð Nd. á þessu frv. að ætla þessari d. örlítinn tíma til afgreiðslu svo yfirgripsmikils máls, eftir að hafa haldið því vikum og mánuðum saman án þess þó að hafa fundið á því viðunandi lausn. Að þessu leyti vil ég taka undir orð þeirra hv. þm., sem hér hafa talað. Satt að segja furðar mig og mjög á því, að hv. fjmrh. skuli ekki vera hér viðstaddur í d. þann stutta tíma, sem þetta stórmál er til umr. Annaðhvort er honum orðið alveg sama um afdrif þess, eða hér er aðeins um að ræða svo takmarkalausa óvirðingu fyrir þinginu, að hann telur það ekki ómaksins vert að fórna því nærveru sinni þessa stuttu stund, sem d. er ætlað til þess að ræða þetta mál, sem þó að margra dómi er ekki alveg óviðkomandi fjmrh. þjóðarinnar.

Í sambandi við afgreiðslu málsins í Nd. vil ég leyfa mér að benda á, að ein gr. þessa frv. var samþ. þar með 15:12 atkv. Nú er það vitað, að frv. kemur til með að valda deilum utan þings, ef það er samþ. þannig út úr þinginu með vilja aðeins 1/3 hluta þm. Eigi málin almennt að fá slíka meðferð, að eigi sé gefinn tími til athugunar og breytinga á auðsjáanlega stórgölluðum ákvæðum samþ. af litlum meiri hluta í Nd.; þá veit ég ekki, til hvers verið er að senda þau til Ed.

Frá mínu sjónarmiði á hv. stj. ekki svo litinn þátt í, að svo er komið sem komið er. Henni var að sjálfsögðu innan handar að krefjast svo skjótrar afgreiðslu frá Nd., að þessi d. gæti haft eðlilegan tíma til afgreiðslu málsins á viðunandi hátt. Ég styð því mjög þá till., að málið fari í n., og að sú n., sem væntanlega verður fjhn., hafi það til athugunar til morguns, eða lengur, ef nauðsynlegt er. Annars sé ég litinn ávinning að þessu örverpi eftir tveggja mánaða körun í Nd.

Raddir hafa komið fram um að fella niður 3. og 6. gr., og allir vita, að 1. og 7. gr. eiga ekki heima í frv. Er þá ekki svo mikið eftir af því, að mikill skaði megi teljast að láta það sofna í n. Þvert á móti væri það leið til þess að bjarga heiðri þingsins, eins og nú er komið.

Ég sé, að hv. fjmrh. er nú kominn hér í d. Ég var undrandi yfir þeim leiðarvísi, sem hann lét þessari hv. d. í té, er hann innleiddi hér þetta mál. Af orðum hans gátu dm. ekkert ráðið, hvort stj. líkaði betur eða verr afgreiðsla málsins í Nd., og tel ég það leitt, að ekkert skyldi koma fram í ræðu hans, sem benti á, hvernig stj. óskaði helzt eftir, að málið væri afgr. hér, úr því sem komið er. Ég vil einnig benda á, að sami háttur var hafður á um afgreiðslu fyrsta stjfrv. hér í vetur. Stj. var þá bent á ýmsar veilur í því frv., er síðar mundi leiða til margvislegra erfiðleika fyrir dýrtíðarmálin. Það hefur nú komið á daginn, að þessi aðvörun var á rökum byggð, óg að betur hefði farið, ef henni hefði verið gefinn meiri gaumur. En stj. þorði ekki að taka á málinu þeim tökum, sem nauðsynlegt var vegna hræðslu við verkalýðsflokkana, og valdi hún þá heldur minna réttlæti, minni festu og meira undanhald. Þetta er fyrsta ástæðan til þess, að þessum málum er ekki komið lengra en raun er á.

Þá vil ég einnig leyfa mér að benda á, að það hefur mjög tafið heppilega afgreiðslu dýrtíðarmálanna að blanda inn í þau jafnviðkvæmum og óskyldum málum sem skattamálunum. Hv. stj. hlaut að vera ljóst, að 1. og 2. kaflinn í frv. hennar áttu þar ekki heima, heldur í skattalögum. Hv. forsrh. og fjmrh. hlaut einnig að vera ljóst, að með nýjum l. um skattaákvæði varðandi tekjur ársins 1942 var gengið aftan að þegnunum, sem hafa lifað og starfað í þeirri góðu trú, að ekki væri allt í einu farið að gerbreyta skattafyrirkomulaginu þannig, að tekinn væri allt annar og meiri skattur af tekjum þeirra á árunum 1942 en l. mæla fyrir um. Ég boða því stórkostlega breyt. á l. gr. eins og hún er nú, sem fer í þá átt, að þurfi ríkið að taka fé af þegnunum til dýrtíðarráðstafana, þá sé það a.m.k. tekið á ærlegan hátt, en ekki komið aftan að mönnum til að taka af þeim fé, sem varið er með l. frá undanförnum þingum, sem enn eru í gildi.

Menn kveinka sér ekki við sköttum, sem teknir eru innan viturlegra takmarka, en þeir eiga heimtingu á því, að skattheimtan sé lögum samkvæm, en það getur hún ekki talizt, þegar þeir eru narraðir út í ýmisskonar atvinnurekstur í þeirri trú, að gildandi skattalögum verði ekki breytt fyrirvaralaust í þá átt að gera þá réttlausa gagnvart ríkinu. Þetta er svo stórt atriði, að ég óska eftir, að hv. fjhn. þessarar d. athugi það gaumgæfilega út frá sjónarmiði þegnanna og taki þá jafnframt tillit til þeirrar vansæmdar, sem á þingið mundi falla, ef sú regla væri þar almennt upp tekin að meta að engu l. fyrri þinga.

Einnig hef ég í huga að gera miklar breyt. við 7. gr., ef hún nær samþ. óbreytt við 2. umr., því að eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði, þá nemur hún á brott allt atvinnuöryggi í landinu. Mér virðist kenna nokkurs ósamræmis í því, þegar hv. fjmrh. er að lýsa erfiðleikum atvinnurekenda, en á sama tíma kippir hann burtu stoðunum, sem standa undir rekstri þeirra. Mig undrar að jafn hygginn fjármálamaður og hann skuli í fyrstunni ekki hafa séð, hvert stefndi, en verða síðan að fara í hring í rökum sínum til að verja þetta athæfi.

Ég held, að erfiðleikarnir við að lækka dýrtíðina séu ekki hvað sízt í því fólgnir, eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði, að sameiginlegur vilji þjóðarinnar stendur ekki á bak við það átak, sem til þess þarf að árangur fáist, og jafnframt að mikill meiri hluti þjóðarinnar lítur ekki á dýrtíðina sem mein, er nauðsynlegt sé að lækna. Burtséð frá því, hvort þetta er rétt eða rangt ályktað, þá væri ómaksins vert að rækileg rannsókn færi fram á því, hve mikið þjóðarbúið græðir á því að færa niður dýrtíðina með fjárframlögum úr ríkissjóði. Í sambandi við þetta mál má ekki gleyma því, að fyrir hverja vinnustund, sem við seljum setuliðinu með lægra verði vegna milligjafar úr ríkissjóði, erum við að gefa erlendu ríki ákveðna upphæð. Sama má segja um þær íslenzku afurðir, sem setuliðinu eru seldar fyrir lækkað verð vegna milligjafar. Þetta atriði hefur stj. vanrækt að láta athuga vísindalega, og er þess vænzt, að það verði nú ekki látið dragast lengur. Gæti það vel orðið til þess, að þm. ættu hægara með að átta sig á málinu að fengnum þeim upplýsingum.

Ég segi ekki að það sé mín skoðun, að þjóðin græði ekki á því að færa niður. dýrtíðina, en ég segi, að þjóðin sé ekki sammála um skattaöflun í þeim tilgangi, skattaöflun, sem gengur svo langt, að hún brýtur l. og teflir sóma þings og stj. í hættu.

Það er erfitt að samræma þá hugsun, að rétt sé og sjálfsagt að taka allt af útveginum, eins o; gert er með 7. gr., en leggja svo fram 2 millj. til stuðnings þeim sama atvinnuvegi. Nú á að taka allt, sem útvegurinn á. Ekki til þess að minnka dýrtíðina, heldur til þess að auka hana, því að vitanlega er verið að auka dýrtíðarflóðið með því að leysa bundið fé sjóðanna og setja það í umferð. Ráðstafanir hv. fjmrh. ganga því í þá átt að auka peningaflóðið í landinu og þá jafnframt að auka dýrtíðina.

Hvað viðvíkur þeirri skoðun hv. 5. þm. Reykv. að rétt sé að herða á þeim ákvæðum, að nota megi nýbyggingarsjóð aðeins til nýbygginga, þá er ég því alveg sammála. Það hefði átt að tryggja það þegar í byrjun, að þeir væru ekki notaðir í neitt annað. Ég veit, að útgerðarmenn mundu fyrir sitt leyti verða manna fyrstir til að samþykkja, að svo væri gert. Hins vegar tel ég rangt að leyfa enga varasjóði til að mæta taprekstri í erfiðum árum, því ef taprekstur er og ekkert er fyrir hendi til þess að mæta honum, þá er enginn áhugi lengur fyrir nýbyggingum og nýbyggingasjóðirnir þá alveg óþarfir. Það er því ekki rökrétt hugsað að leyfa ekkert fé til frádráttar til þess að mæta erfiðu árunum.

Ég mun nú ekki ræða þetta frv. eða einstakar gr. þess meira að sinni, en læt nægja þau atriði, sem ég hef þegar bent á. Ég vil að lokum taka það fram, að ég mun flytja róttækar brtt. við 1. og 7. gr. frv., nema því aðeins að þær taki miklum breyt. í fjhn. og við 2. umr.

Annars væri réttast að fella 3., 6. og 7. gr. alveg burtu, eða þá taka þann kostinn að svæfa frv. í n. og reyna þannig að bjarga sóma Alþ., sem nú á tímum er reynt að gera sem minnst úr.