12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Það er í rauninni óþarfi fyrir mig að taka til máls, þótt hv. þm. Barð. léti þung orð falla um gerðir stjórnarinnar. Það er öllum kunnugt, hve mikill afburða dugnaðarmaður þm. Barð. er, og ef hans líkar væru í ríkisstj., þá fengist einhver úrlausn vandamálanna, en óvíst er, hve farsæl hún mundi vera.

Ég kann ekki við að hv. þm. Barð. beri fram þær ásakanir, sem hann hefur látið sér um munn fara. Hann er alls ekki dómbær um, hver aðstaða stjórnarinnar er.

Ég vil aðeins minna á, í sambandi við það, sem þessi hv. þm. sagði um veikleika stjórnarinnar, að mig minnir, að í ársbyrjun 1942 hafi setið hér að völdum sterk stjórn.

En ef þm. Barð. tekur upp þann hátt að vera siðameistari hér, þá vil ég minna hann á að brúka siðareglurnar fyrst við sjálfan sig.