12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Þetta eru nú orðnar nokkuð langar umr., en þó kannske ekki lengri en hefði mátt vænta.

Ég kvaddi mér hljóðs út af meðferð málsins, en ekki efni, því að mér sýnist það horfa til vandræða, hve tíminn til afgreiðslu þess er stuttur. Get ég ekki látið hjá líða að drepa á einstök atriði.

Hv. 1. þm. Reykv. lét í ljós, að samkomulagið, sem gert var í fjhn., hafi verið rofið. Ég held, að það sé ekki rétt. Ég held að þessir 5 menn hafi staðið saman að till. sínum, eftir því, sem ég bezt veit. Þetta hefur kannske átt að tákna hjá hv. þm., að það hafi verið flokkasamkomulag. En þeir stóðu ekki í sambandi við flokksmenn sína, og því ekki þess að vænta, að málið kæmist óbreytt í gegn. — Ég er ekki búinn að taka endanlega afstöðu til 7. gr. þess.

Það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Barð.. að verið væri að torvelda aðstöðu til endurbyggingar flotans, eins og þeir sjá, sem lesa grg. En ég hef, eins og ég sagði áðan, ekki tekið endanlega opinbera afstöðu til málsins.

Þá kem ég að meðferð málsins, en hún gaf mér aðaltilefnið til þess að standa upp. Hv. fjmrh. gat þess, að þinginu yrði slitið fyrir kl. 10 annað kvöld. En það verður að ætla tíma til þess að koma málinu í gegn, ef það tekur breytingum. D. þarf tíma til að gera sínar athugasemdir. Þess vegna verð ég að segja, og beina því til hv. forseta, að ég sé ekki annað en umr. verði að fara fram í kvöld, ef málið á að fá afgreiðslu þingsins.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að ræðu hv. 5. þm. Reykv. Hann sagði, að frv. hefði verið skemmt í Nd., af því að Búnaðarfélag Íslands hefði verið áskilinn sami réttur fyrir hönd bænda og alþýðusambandið hefur fyrir hönd verkamanna. Hann neitar því að búnaðarfélagið sé réttur forsvarsaðili fyrir bændur. Mig furðar á því, að þm. skuli láta sér slíkt um munn fara. Það er að vísu ekki kaupkröfufélag. Ég hygg að það séu margir verkamenn, sem ekki eru í verkamannafélögum. En flestir, eða allir bændur eru í búnaðarfélaginu. Tel ég því, að líta megi á búnaðarfélagið sem greinilegra stéttarfélag en alþýðusambandið og fullgilt til að gera samkomulag fyrir þeirra hönd um bráðabirgðaráðstafanir.

Það er vandi að skera úr því, hvernig sómi Alþ. má mestur verða, einkum þessarar d., í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Hv. þm. Barð. vill helzt láta það sofna.

Það er ýmislegt, sem mælir með því, að þessi d. láti ekki bjóða sér ýmislegt, sem hún verður fyrir af hinni d. Til dæmis er afgreiðsla þessa máls. Hér á að gera það á einum degi, sem hin þurfti tvo mánuði til að gera.

Ég held ekki, að sómi Alþ. verði meiri, ef málið er látið sofna. Mestar deilur hafa orðið í blöðum, vegna þess hve afgreiðsla þessa máls gengur seint, og tel ég illt, ef ekki verður hægt að fá sæmilega lausn á því. Það má deila um það, hvort eigi að kenna fremur ríkisstj. eða þm. um, hvernig gengið hefur með málið. Leitaði hv. forsrh. vitnisburðar fjhnm. um það efni. Hún var á undan fjhn. að leggja fram miðlunartillögur í málinu, sem hafa fengið meiri byr en frv. eins og það var, þegar það var fyrst lagt fyrir Alþ.

Um eitt er hægt að saka jafnvel utanflokka stjórn, og það er það, að hún leitaði ekki samráða við Alþ. og flokka þess, þegar hún samdi frv. Vera má, að ef þess samstarfs hefði verið leitað áður en till. voru lagðar fram, að einhver von hefði verið samkomulags. Þá var stjórnin búin að gera sitt til. Þá var hún búin að gera það, sem í hennar valdi stóð, til þess að málið gengi fram.

Ég álít seinaganginn í Nd. ekki afsakanlegan. Ég held, að þeirri d. sé það ekki ljóst, að hún er ekki allt þingið og það sé ekki nema formsatriði að senda mál til þessarar d. Verður í framtíðinni að gera ráðstafanir til þess, að stórmál séu ekki tafin á þennan hátt. Það er mál út af fyrir sig, hvort ekki eigi að gefa Nd. þá ráðningu, sem hún á skilið að fá.