12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Mér virðast einkennileg svör hv. ríkisstj. í þessu máli og ekki ástæða til að hlaupa upp á nef sér, þó gerðar séu jafnsjálfsagðar aðfinnslur og komið hafa fram. Saga stjórnarinnar er í stuttu máli sú, að hún kom sem hjúkrunarkona til að hjúkra Alþ. eftir tvennar kosningar. En nú er það hún, sem þarf hjúkrunar við. Hún ætti að halda sér við málefnið, og ef hún ekki þekkir það, á hún að kynna sér það. Þarf nokkuð til þess að kynna sér málin? Þyrði ég að keppa við hana í því efni, og skyldi ég standast það próf betur, þegar verk hennar verða dæmd af þjóðinni og Alþ. á sínum tíma. (Forsrh.: Þér gerizt spámaður !).

Það er alveg óþolandi, að stjórnin skuli ekki geta þolað rök.

Það er ljóst, að stjórnin hefði fremur átt að setja Nd. stólinn fyrir dyrnar en Ed. Ef hún hefði beðið um traust, hefði hún fengið það, þegar hún kom sem hjúkrunarkona. En í hverju frv., sem hún hefur komið með, hefur hún farið sínar eigin leiðir, en ekki leitað samstarfs við Alþ., og því hefur farið sem farið hefur, og ætti hún að læra af þessu.