11.12.1942
Efri deild: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég vil aðeins í tilefni af þeim málum, sem hefur verið minnzt á utan dagskrár, skýra frá því, að þegar fyrirspurn þessi kom út af Gylfaginningu, þá svaraði ég því til, að mér væri ekki kunnugt um, að neitt leyfi væri gefið fyrir slíkri útgáfu. Mér hefur verið tjáð síðan, að um þetta mál hafi verið nokkuð rætt. Bæði útgefandi og höfundur bókarinnar voru í nokkrum vafa um það, hvort leyfi þyrfti til útgáfunnar. Hér er um að ræða bók um ákveðinn höfund og sýnishorn af ritmennsku hans og að vísu tekinn alllangur kafli úr einu af ritverkum hans. Mundi því vera vafi á, hvort hér væri um útgáfu fornrits að ræða. Það var því talað við skrifstofustjóra kennslumálaráðuneytisins um þetta, og nokkur vafi, sem á lék um það, hvort leyfið þyrfti eða ekki, mun hafa orðið til þess, að ekki var sótt um leyfið. Nú hefur mér ekki tekizt að ræða við skrifstofustjóra um þetta, og get ég því ekki sagt um, hvað þeim hefur farið á milli, útgefanda bókarinnar og skrifstofustjóranum. En ritið er gefið út þannig, að viðkomendur vildu fylgja lögum og reglum í þessu efni. Þeir höfðu fulla ástæðu til að halda, að þeir hefðu munnlegt leyfi frá skrifstofustjóranum. Og ég get bætt því við, að ég mundi hiklaust hafa gefið leyfið, ef til minna kasta hefði komið.

Mun ég ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni. Málið hefur verið á döfinni í kennslumálarn., og mun fljótt vera hægt að upplýsa það algerlega.