13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Það þarf að sjálfsögðu ekki að skýra hv. d. frá því, hve ófullnægjandi tíma fjhn. hefur haft til að athuga þetta mál. N. var vel ljóst, að það voru ýmis atriði frv. sem hún hefði viljað athuga betur en gert var og víssulega var þörf á breyt. við. Einkanlega var það á 1. gr. frv., þ.e.a.s. um skattaákvæðin, sem þurft hefði að fara fram nákvæmari athugun, t.d. á skattstiganum og hve mikilla tekna mætti vænta. En til þess var enginn tími. N. varð að láta sitja við þá athugun á því, sem fram hafði farið í Nd.

Eins og sjá má af nál. á þskj. 744 hefur n. að miklu leyti orðið sammála. Að vísu hefur 1. þm. Eyf. sérstöðu, sem hann sem þm. mun gera grein fyrir sjálfur. Ég hygg hún varði síður efni málsins en formlega afgreiðslu. Og ég hygg, að sumar þær brtt., sem n. ber fram, muni hafa verið gerðar með samþ. hans.

Ég skal í sem fæstum orðum gera grein fyrir þeim brtt., sem n. hefur orðið sammála um að bera fram og teknar eru upp í nál. á þskj. 744.

Við 1. gr. frv. eru engar brtt. teknar upp. Það væri sjálfsagt ástæða til að gera grein fyrir því, hvaða tekna mætti afla samkv. 1. gr. frv. Sú athugun, sem hefur farið fram á því, verður að byggjast á því, sem ríkisstj. var búin að áætla samkv. frv. því, er hún upphaflega bar fram, eða samtals um 11 millj. kr. en af þeim eru áætlaðar 2 millj. geymslufé, eða 9 millj. í ríkissjóð. Nú er skattstigi sá, sem hið upprunalega frv. gerði ráð fyrir, breyttur, og eftir því sem áætlað er, munu tekjurnar samkv. þeim breyt. verða um 1 millj. kr. lægri og mætti því ætla um 8 millj. í ríkissjóð, en það er ómögulegt að fullyrða, að þetta standist. Þó má segja það, að eftir þeim fregnum, sem fjhn. hefur fengið um tekjuframtal, rá muni þessi tekjuáætlun frekar varlega áætluð og tekjur verða meiri, en ekki minni.

Því er ekki að neita, að hér er um allháan og tilfinnanlegan skatt að ræða, sem kemur fyrst og fremst niður á hærri meðaltekjur og lægri hátekjur, eða 50–200 þús. kr., þrátt fyrir það, að hér sé um verulega viðbót skatta að ræða, má fullyrða, að þeir fari hvergi alveg upp í 100%. Það var gerð athugun á þessu og gjaldstiginn reiknaður út og þá miðað við útsvarsstiga síðasta árs. Mér skilst, að eftir honum komist samanlagður tekju- og eignaskattur, útsvar og stríðsgróðaskattur hæst í 96%. Það er þó ekki verra en það. Þetta þætti utan Íslands hár skattur, en þar sem hann hefur í mörg ár verið 100%, þá þarf ekki að kippa sér upp við þetta, þegar þessi skattur er þá líka aðeins ætlaður til eins árs, og honum þar að auk ætlað að ráða bót á mjög alvarlegu þjóðfélagslegu vandamáli. Að þessu athuguðu ættu skattborgarar að sætta sig við frv. Ég geri það ekki með neinni ánægju að fylgja svo gífurlegri skattahækkun. Okkar skattar hafa verið of háir og hafa staðið atvinnulífinu fyrir þrifum. Mér er ógeðfellt að flytja svona mál, en maður verður að sætta sig við það eftir ástæðum. Þá er eðlilegt, að spurt sé: Til hvers er þessa fjár aflað? Þess er aflað til þess að standast kostnað af þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru í 4. og 5. gr. þessa frv. Það hefur verið reiknað út, hvaða uppbætur greiða þurfi á kjöt og mjólk þann tíma, sem l. eru í gildi, svo að kjötbirgðir þær, sem í landinu eru, verði bættar að fullu. Má manni þá detta í hug, hvort miða eigi við þær hækkanir, sem ríkisstj. lét gera, eða hvort miðað er við það verð, sem nú er. Ef það er miðað við það verð, sem nú er, þá munu uppbæturnar á kjöt nema um 2 millj. kr. Ég held ég fari rétt með það, að hæstv. félmrh. hafi sagt í Nd., að uppbæturnar mundu nema um 4 millj. kr. Uppbótin fyrir mjólk mun áætluð um 1 millj., en það má gera ráð fyrir, að ef breyt. þær eru samþ., sem lagðar eru til í þessari hv. d., þá verði mjólkuruppbæturnar ögn hærri, af því að lækkun vísitölunnar kemur ögn seinna. Hér getur þó ekki verið um mikla hækkun að ræða, þar sem aðeins munar um einn mánuð, en það er gert ráð fyrir, að hún lækki í júní í stað maí.

Ef lögð er til grundvallar hærri talan, sem kjötuppbæturnar mundu nema, eða 4 millj. kr., þá nema þessi útgjöld samtals um 5 millj. kr. Mér sýnist eðlilegast í þessu sambandi að fara meðalveginn, og yrðu þá uppbæturnar alls um 4 millj. kr.

Það er því sýnilegt, að af verðlækkunarskattinum samkv. 1. gr. verður allrífleg upphæð eftir. Seinna mun ég gera grein fyrir því, hvernig fjhn. gerir ráð fyrir, að þessum tekjuafgangi verði varið. Fyrst um sinn ætla ég að ganga fram hjá fyrstu brtt. á þskj. 744. Það er naumast hægt að gera grein fyrir henni fyrr en búið er að gera grein fyrir hinum, en þá er fyrst sú, að 3. gr. frv. skuli niður falla. Með þessu er það unnið, að dýrtíð fæst niður einum mánuði fyrr en ella.

Fyrir lágu yfirlýsingar frá báðum deildum um, að samkomulag mundi ekki nást. Og ef samkomulagi er ekki náð, er lítil bót að því, að 3. gr. standi. Yfirleitt skiptir það ekki máli, hvort hún stendur eða er felld niður.

Ekki er hægt að fullyrða að full verðlækkun náist í júní. Örfá stig kunna að bíða þar til í júlí. En ekki er það sjáanlegt, að atvinnulífið sé í hættu þrátt fyrir dýrtíðina. Atvinnutækin eru í fullum gangi. Það verður þá ekki fyrr en síldveiðarnar byrja, að ástæða er til að óttast hættu í því efni.

Eðlileg afleiðins af því, að 3. gr. fellur, er það, að lagt er til, að 6. gr. falli einnig niður. Þessar 3 millj. kr., sem gert var ráð fyrir, að lagðar yrðu í sjóð, sem nefndist atvinnutryggingarsjóður, áttu að koma í stað fórna atvinnuveganna.

4. brtt. nefndarinnar er, að 7. gr. falli niður. Ekki er því að neita, að um efni þessarar greinar eru skoðanir nm. mjög skiptar. Þó held ég, að enginn ágreiningur hafi verið um það, að gr. ætti ekki heima í þessu frv., þótt sumir nm, gætu fylgt efni hennar að meira eða minna leyti. Ég hygg, að hv. 1. þm. Eyf. sé efnislega samþykkur því, að 7. gr. falli. (BSt: Nei). Þykir mér óþarft að rekja þetta frekar eða sundurgreina nánar.

Um 1. gr. var nokkur skoðanamunur meðal nm. um það, hvort nokkuð af því fé, sem þar ræðir um, skuli ganga til tryggingarstofnunar ríkisins. Áður hef ég gert grein fyrir því, að af tekjum þeim, sem aflað er samkv. b. gr., verði nokkru haldið eftir. Það vaknar þá sú spurning, hvort rétt sé að láta tekjum þessum óráðstafað og verða að eyðslueyri eða veita því til fyrirtækja til hagsbóta fyrir almenning. Önnur leið er að lækka skattstigann, þar sem tekjurnar gerðu ekki betur en að standast á við útgjöldin, samkv. 5. og 6. gr. Fullt samkomulag var með meiri hluta nm. um, að gera bæri ráðstafanir um það, hvernig fénu skuli varið. Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á alþýðutryggingarlögunum. Skal ég engu spá um það, hvort við fáum nýskipun í því efni eða ekki, en hvort heldur sem verður, þá er þörf á fé til að grípa til. Í till. okkar er óákveðið, hvernig fénu skal varið, og leggjum við til, að það bíði endurskoðunar þeirra laga. Hvort það verður notað sem vísir að alþýðutryggingarsjóði, læt ég ósagt; vil engu spá um það. Framtíðin verður að leysa úr því. N. var sammála um brtt. til varnar því, að fé þetta yrði látið renna í ríkissjóð sem eyðslueyrir, en hvernig því yrði varið til hagsbóta í framtíðinni, skipti minna máli. Samkomulag um sanngjarna lausn málsins hefur ekki fundizt hjá meiri hlutanum.

Ég skal geta þess, að fyrir lá skrifleg brtt. frá Barða Guðmundssyni. N. athugaði hana, en gat ekki fallizt á hana.

Við nm. ákváðum að standa á móti brtt. við frv. nema einhverjum sjálfsögðum brtt., sem enginn ágreiningur yrði um.

Með þessum brtt. mælir n. með því, að frv. nái fram að ganga, og vonar að till. beri einhvern árangur og bæti úr þeim erfiðleikum, sem verðbólgan hefur skapað í þjóðfélaginu.