13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Mér þykir rétt að taka fram, þótt ég sé með brtt. okkar fjögurra nm., að því fer þó fjarri, að ég telji með samþykkt þessa frv. fundna algera lausn í dýrtíðarmálunum. Í frv. er hvergi bent á lausn í sambandi við verðlag, skattamál og stríðsgróða. Samt tel ég, þar eð útséð er um, að frv. verði öðruvísi, að sú lausn, sem um ræðir í því, sé skárri heldur en ástandið verði óbreytt eins og það er nú. Með vísitölunni, eins og hún er nú, og þeim kostnaði, sem nú ríkir í sambandi við framleiðslustörf, þá tel ég vafasamt, hvort einstakir atvinnuvegir geti haldið áfram eða hvort þeir stöðvist, og ef vísitalan hækkaði enn í sumar, þá mundi það óhjákvæmilega koma fram á verði landbúnaðarafurða á komandi hausti. Ég tel þess vegna frv. skárra heldur en óbreytt ástand í dýrtíðarmálunum. Samkv. upplýsingum hæstv. fjmrh. þá gerir hann ráð fyrir, að ef frv. verði samþ. í þessari mynd, þá mundi það lækka vísitölu í skyndi niður í 235 stig.

Hv. frsm. fjhn. sagði, og tel ég það rétt, að ef ekki yrði gerð breyt. á kaupi launafólks, þá gæti það tafið fyrir lækkuninni. Þetta atriði er komið undir því, hve röggsamlega hæstv. ríkisstj. beitir þeirri aðstöðu, sem hún fékk með l. um verðlag, sem afgr. voru frá Alþ. fyrr í vetur. Ég tel, að ef árangur af verðlagseftirlitinu eigi að sjást, þá verði það nú þegar að sýna meiri rögg af sér en hingað til.

Eins og frv. er nú, þá er horfið frá því að skerða kaupgjald launþega. Það er ljóst, að þessi hækkun vísitölunnar um nærri 30 stig léttir mikið undir á ýmsum sviðum framleiðslu og framkvæmda í landinu, og mest þar sem erfiðleikarnir eru stærstir, auk þess sem ég tel, að hún hafi áhrif á það, hvað verð landbúnaðarafurða verður ákveðið á næsta hausti, og getur vel farið svo, að þetta ríði baggamuninn. Síðan dýrtíðin magnaðist og ákvæði gengislaganna um fast hlutfall á milli kaupgjalds og verðlags raskaðist, þá vildi ég og lagði mikla áherzlu á, að reiknuð yrði út vísitala fyrir landbúnaðarafurðir og hlutfallið á milli bænda og verkafólks. Þetta mætti mikilli andstöðu, illu heilli, og það lánaðist að koma í veg fyrir, að þetta yrði gert. Nú í frv. er gert ráð fyrir, að n. verði skipuð til þess að rannsaka þetta. Ég tel bót að því, að slík n. skuli skipuð, en vil þó taka fram, að ég er ekki ánægður með skipun n. Þessari n. er líka ætlað að koma á samkomulagi milli aðila, um hlutfall milli kaupgjalds og verðlags. Vel er, ef þetta lánast, og ég vil leggja áherzlu á, að þetta verði reynt til þrautar.

Alþ. hefur nú setið lengur en nokkru sinni, eða í 5 mánuði, og ég verð að segja, eins og er, að því hefur ekki alls kostar lánazt að finna lausn í þessum málum, a.m.k. ekki svo, að meiri hlutinn vildi styðja hana. Samkv. frv. er nú ætlazt til, að leitað verði að lausn eftir nýjum leiðum. Úr því, sem komið er, tel ég rétt, að þessi tilraun verði gerð og til hennar verði vandað, og illa er farið, ef spillt yrði að slíkar samningaumleitanir megi takast.

Verðlækkunin, sem gerð er samkv. frv., er miðuð við það tímabil, sem n. er ætlað til starfa. — Ég rengi ekki, að það sé illfær leið að koma fram lækkun á afurðaverðinu með greiðslum úr ríkissjóði. — Öllum er að vísu ljóst, að sú leið er gerleg, en samt ófær til lengdar, eða sem lausn á málinu. Hér er því aðeins um að ræða frest, á meðan tilraunin er reynd til þrautar. Til þess að standast kostnaðinn við framkvæmd l. er lagður á skattur sá, sem í frv. greinir og ég tel hinn vafasamasta.

Ég neita því að sönnu ekki, að það bætir mikið þennan skatt, að þrjár millj. af honum eiga að renna til alþýðutrygginganna, því að ég fullyrði, að verkefni í þeim efnum fer vaxandi og þörfin fyrir framlagi af hálfu hins opinbera einnig.

Að því er snertir áætlanir um það, hve miklar tekjur skatturinn muni veita, verð ég að segja það, að því er mig snertir, að ég hef ekki getað á þeim skamma tíma síðan þessu var breytt, gert áætlun, sem neitt megi á byggja, um það, hversu skatturinn nemur miklu. Hv. frsm. gat um áætlun, sem gerð var af fjármálaráðuneytinu á sínum tíma, og kom með áætlun um, hverju skatturinn mundi nema eftir þeim breyt., sem á hafa verið gerðar. Ég verð að segja, að við lauslega athugun finnst mér hæpið, að skatturinn muni nema þeirri upphæð, sem hv. frsm. nefndi. En ég hygg, að það sé rétt hjá hv. frsm., að þetta muni ekki svo stórkostlegu, að þetta þurfi að ríða neinn baggamun, að því er afgreiðslu málsins snertir.

Ég hef komizt að raun um það, eins og ég drap á fyrr, að það er með öllu vonlaust að fá afgreidd samtímis á þinginu verðlagsákvæði og skattamálaákvæði, sem snerta verulega stríðsgróðann í landinu. Ég tel því rétt eftir atvikum, að nú að þessu sinni sé snúið sér að því að afgreiðsla málsins verði á þennan takmarkaða hátt, sem ég hef nú lýst, að ákveða þessa verðlagslækkun, sem í frv. greinir, og gera þá tilraun, sem í frv. greinir, um að ná samkomulagi um rétt hlutfall milli verðlags og kaupgjalds, en blanda ekki inn í þetta afgreiðslu þeirra skattamála, sem mjög snerta stríðsgróðann, og á ég þar sérstaklega við þann stríðsgróða, sem safnazt hefur á undanförnu ári. Ég mun því ekki bera fram að þessu sinni brtt. við frv. í þá átt að taka upp eignaaukaskatt eða slíka skatta. En ég geri ráð fyrir, að ég muni sýna till. þess efnis við allra fyrsta tækifæri eftir afgreiðslu þessa máls.

Hv. 1. þm: Eyf. (BSt) ræddi í þessu sambandi um 7. gr. frv., sem lagt er til brtt. frá meiri hl. n., að felld verði niður. Hann orðaði það svo, að þó að hann teldi að vísu ýmsa annmarka á gr. og sérstaklega á því að setja hana í þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá teldi hann þó til vinnandi að láta hana vera í frv. Ég fyrir mitt leyti álít, — þó að ég sé fylgjandi efni gr. í einstökum atriðum, — að ákvæðum skattal. um varasjóði og skattfríðindi varasjóðstillaga og annað slíkt þurfi heildarendurskoðun á, sem ekki hefur verið unnt að gera nú í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Og ég álít jafnframt, að löggjöfina um nýbyggingarsjóðina þurfi að bæta og breyta í verulegum atriðum, t.d. þurfi að tryggja það betur en nú er gert, að þessum sjóðum verði varið eingöngu til þess, sem tilgangurinn var samkvæmt l. og ætlazt var til, þegar ákvæðin um myndun slíkra sjóða voru sett, þannig að ekki megi láta þessa sjóði mæta taprekstri og fara í rekstrarhalla fyrirtækjanna, sem mundi draga þetta fé frá þeim nýbyggingum, sem þeim er ætlað að renna til. Þetta vildi ég aðeins benda á í sambandi v ið 7. gr. frv.

Ég vil endurtaka það, sem ég fyrr sagði, að því fer fjarri, að ég telji, að með samþ. þessa frv. sé nokkur lausn fengin á dýrtíðarmálinu. Það er með því aðeins keyptur frestur til þess að gera tilraun til þess að finna varanlegri lausn á því máli heldur en nokkur möguleiki var á, að hægt væri að fá á þessu þingi. Og jafnframt er hér um að ræða heimild til þess að leggja fram fé úr ríkissjóði til þess að lækka dýrtíðina á þessu tímabili. En þessa lækkun, sem fram kemur þó gegnum þá lækkun á afurðaverði, sem frv. gerir ráð fyrir, hana á með röggsamlegri framkvæmd hjá verðlagseftirlitinu að mega nota til þess að koma fram örari og meiri lækkun á því sviði heldur en ella mundi. Samkv. upplýsingum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið fjhn., þá er áætlað, að fyrir hver 10 stig, sem vísitalan lækkar, lækki útgjöld ríkissjóðs um 1500–1600 þús. kr. Og sjá þá allir, hversu miklu máli skiptir fyrir afkomu þjóðarbúskaparins, að eitthvað sé í þessu gert. Mér er einnig tjáð, að hjá einu einasta fyrirtæki hér, Eimskipafélagi Íslands, muni hver 10 stiga lækkun á vísitölunni samsvara 300–350 þús. kr. lækkun á árlegum gjöldum félagsins. Þó maður því verði að játa, að engin lausn er fengin á dýrtíðarmálinu með því að samþ. þetta frv., þá verður maður einnig að játa, að í viðbót við það hagræði og þann létti, sem ýmsar atvinnugreinar, sem nú eru mest aðþrengdar, fá með lækkun framleiðslukostnaðar, þá hlýtur lækkun vísitölunnar einnig að hafa veruleg áhrif til bóta á hag ríkissjóðs og ýmissa fyrirtækja, sem mikið er undir komið.

Ég vil því, eins og ég áður sagði, mæla með því, að frv. með þeim breyt., sem við fjórmenningarnir (meiri hl. fjhn.) höfum lagt til, að á því verði gerðar, verði samþ., og byggi ég það á þeim forsendum, sem ég nú hef gert grein fyrir.