13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég sagði áðan, að tíminn til þess að afgreiða þetta mál væri stuttur, og skal ég því ekki lengja mál mitt, þótt um margt væri þörf að ræða. Einnig hefur hv. 1. þm. Eyf. svarað nokkru af því, sem ég hafði skrifað niður, og mun ég því viðhafa þann sjálfsagða vinnusparnað að endurtaka það ekki nema sem minnst.

Því hefur verið haldið fram af fulltrúum verkamannaflokkanna, að það þurfi að gera gagngerðar breytingar á skattal. og einnig þeim ákvæðum, sem um getur í 7. gr. þessa frv., og skal ég ekki neita því, að það sé nauðsynlegt. Ég held, að hv. 5. þm. Reykv. hafi tekið þetta fram og sams konar álit kom fram hjá hv. 3. landsk. Það, sem þeir hafa aðallega borið fyrir sig til afsökunar því, að þeir leggja til að fella niður ákvæði 7. gr. frv., er það, að þetta mál eigi að taka upp á næsta þingi, og þá einnig þau atriði, sem felst í gr. um eignaraukaskattinn. Það má gera ráð fyrir, að þetta sé ekki annað en fyrirsláttur, því að allir vita, að páskar eru skammt framundan og auðsætt, að þessu máli verður ekki lokið fyrir páska. Næsta þing yrði því að hafa langa setu, ef þetta mál ætti að ganga fram, og auðsætt er, að þessir skattar yrðu ekki lagðir á fár. Það er enda vitað mál, að þessi ákvæði 7. gr., sem sósíalistar í Nd. báru fram, hafa ekki verið flutt í þeim tilgangi að fá þau samþ., og þeir hafa ekki búizt við, að þau fengjust samþ. og þess vegna snúast þeir nú á móti þeim. Þegar þeir halda því fram, að ekki hefði átt að bera fram skattatill. í sambandi við þetta mál, þá hefðu þeir átt að sjá það strax í Nd. En nú er það vitað mál, að það hefði verið hægt að fá dýrtíðarfrv. afgr. jafnt fyrir það, þótt 7. gr. hefði verið áfram í því, því að þeir flokkar, sem standa að 7. gr., hefðu jafnframt getað samþ. frv.

Þessir menn hafa einnig haldið því fram, að með 7. gr. hafi ekki fengizt þær fjárhæðir í alþýðutryggingasjóð, sem þeir vildu. Nú vil ég því spyrja þessa hv. fulltrúa þessara tveggja verkamannaflokka, hvort þeir vilji taka 7. gr. upp í frv. eins og hún var borin fram á Alþ. í fyrstu, að alþýðutryggingarnar fái þetta fé og það yrði meira, ef 7. gr. væri tekin upp hér í Ed. eins og hún var borin fram fyrst í Nd., heldur en ef hún væri samþ. óbreytt. Nú vil ég spyrja þessa menn, hvort þeir vilja taka hana þannig upp og fá hana samþ. hér. Ég bíð eftir svari þeirra við þessu. Ef þeir vilja hins vegar ekki gera það, Ef þeir vilja ekki samþykkja skattaálögur á stórgróðafyrirtæki, þá er að athuga, hvort þeir vilja fella dýrtíðarfrv. vegna sinna eigin till. Ekki fá þeir meira fé til alþýðutrygginganna með því. Ég geri því þessa fyrirspurn til fulltrúa verkamannaflokkanna hér og bíð eftir svari þeirra við henni.

Það hefur verið minnzt á það, að Framsfl. hafi ekki verið fáanlegur til þess að samþ. fjárveitinguna til alþýðutrygginganna, nema kauplækkun ætti sér stað um leið. Með þessu er átt við það atriði, hvort verkamenn vilji samþykkja lítils háttar kauplækkun í einn mánuð til þess að fá þennan sjóð. Þetta fellur um sjálft sig, af því að það liggur fyrir, að Framsfl. er fús til þess að samþykkja till. eins og sósíalistar báru hana fram í Nd., og þannig fengju alþýðutryggingarnar meira fé og án nokkurra kvaða.

Annars er það auðsætt mál, þó að alþm. séu misjafnlega fúsir til þess að samþykkja framlag til alþýðutrygginganna, að menn eru alveg sammála um það, að alþýðutryggingarl. ætti að endurskoða. Það er vitað mál. Þess vegna er þetta ekkert annað en fyrirsláttur hjá Alþfl. og Sósfl. Það er vitað mál, að enginn flokkur hér á Alþ., — a.m.k. ekki Framsfl., — sem hefur tök á því að endurskoða alþýðutryggingarl. og endurbæta þau, hefur neitt á móti því að veitt sé fé til þeirra, því fé, sem þarf til þess að gera á þeim skynsamlegar endurbætur. Hér hafa verkamannaflokkarnir góða aðstöðu til sóknar um það að endurbæta tryggingarlöggjöfina, eins og gert hefur verið í nágrannalöndunum. Það þarf ekki að kaupa það fyrir skattfrelsi hinna ríku í þjóðfélaginu að fá framlag til alþýðutrygginganna. Það er ekkert annað en fyrirsláttur, enda er það alveg auðsætt mál, að þeir, sem borga mestan skatt í þjóðfélaginu, eru sjálfsagt fúsir til þess að gera mikið af svona verzlun til þess að losna við að borga skatt. Hvers vegna skyldi ekki auðmaður vilja láta nokkuð af hendi til þess að hann geti persónulega grætt fé? Hitt er svo allt annað mál, hve lengi er hægt að taka peninga úr ríkissjóði, ef það ætti að halda áfram að gera svona verzlun.

Það er satt að segja dálítið einkennilegt, að um leið og verið er að fella niður ákvæði 7. gr., þá er verið að fella niður þau hlunnindi, sem ætluð voru til handa smáútveginum og til þess að byggja hann upp, en öll stærstu stórgróðafélögin eiga að halda hlunnindum sínum. Fyrir það eitt, að 2–4 stórgróðafélög fái að halda hlunnindum sínum, er það unnið til að fella niður hlunnindi smáútvegsins og þar með möguleikana til þess að byggja hann upp. Annars liggur þetta atriði ljóst fyrir, því að hv. 5. þm. Reykv. sagðist vonast til þess, að hann gæti fengið 7. gr. samþ. litið breytta, enda er það vitað mál, að þegar farið verður að ræða þetta mál við útgerðarmenn, að fella 7. gr. niður, þá verður það óverjandi. — Eins og ég sagði áðan, þá er þetta stærra mál en svo, að það sé hægt að ræða það til hlítar á svo stuttum tíma, sem er til umráða í sambandi við þetta mál, og læt því útrætt um þetta atriði að sinni. En það er dálítið einkennilegt, að það hefur engin stétt í landinu verið endurtekin eins oft í sambandi við þetta mál, dýrtíðarmálið, eins og einmitt þessi stétt. Verkamenn og bændur munu aldrei fást til þess að leysa þetta mál með góðu móti, nema Alþfl. sýni vilja sinn í að láta stríðsgróðamenn fórna einhverju.

Nú, þegar á að leysa þetta mál hér á Alþ., þá koma fram þau rök, að ekki sé hægt að leysa málið, ef því sé blandað inn í, að stríðsgróðamenn fórni einhverju. Þegar samkv. 7. gr. Er farið fram á, að það sé gert, þá koma fram þær raddir, að ekki sé hægt að koma málinu í gegn vegna þess, að þessir menn eigi að fórna einhverju.

Út af þeim ummælum hv. 5. þm. Reykv., að mér farist ekki að tala mikið um þetta mál, því að ég hafi verið í bandalagi við íhaldið um skattamálin, og íhaldið hafi þá fengið að raka saman fjármunum. Það er þá komið að því, að hér séu komin skattal., sem þessi þm. og flokkur hans virðist ekki vilja beita. En hins vegar er það ljóst, að um leið og dýrtíðin fór að hækka verulega í þessu landi, þá var engin von til þess, að það gæti gengið, að stríðsgróðamennirnir væru ekki látnir fórna meiru heldur en áður, á meðan dýrtíðin var á byrjunarstigi. Skattar, sem voru ósanngjarnir áður, geta verið sjálfsagðir nú, eftir að dýrtíðin er komin svo hátt. Það er ekki hægt að leysa dýrtíðina nema með meiri fórnum heldur en þeim, sem áður töldust sanngjarnar.

Ég vil ekki fara að ræða gerðardóminn. Það yrði of langt mál að fara að draga hann inn í þessar umr. En satt að segja efast ég um, að kjör verkamannanna í þessu landi séu nokkuð betri nú heldur en þau voru með þeim hlutföllum, sem með gerðardómsl. voru ákveðin. Með frjálsu leiðinni er nú komið svo langt, að við erum sammála um að skipa n., sem á að reyna að finna grundv., sem farið verði eftir. En á meðan við erum ekki komnir lengra en þetta með frjálsu leiðinni, þá held ég, að það sé bezt fyrir okkur að láta það liggja á milli hluta, að ræða um lögbindingarleiðina, sem ýmsar þjóðir hafa þó farið í þessum málum. Það gæti líka vel svo farið, að ekki næðist samkomulag í 6 manna n., þó að það væri óskandi, að samkomulag næðist. Og hver er þá árangurinn af frjálsu leiðinni?

Við höfum nú setið hér á Alþ. í 5 mánuði yfir hinni frjálsu leið, og allir þekkja árangurinn. Það má hverjum manni vera ljóst, að haldi þessu áfram, og ekki náist samkomulag með frjálsum samningum, þá leiðir það ekki til nema einnar niðurstöðu, bæði fyrir þjóðfélagið í heild og verkamenn.

Á meðan ekki er meiri árangur kominn í ljós af frjálsu leiðinni en þetta, þá held ég, að það sé bezt fyrir okkur að hætta að tala um lögbindingu í þeim tón, sem við höfum gert hingað til, ekki sízt þegar við sjáum aðrar þjóðir í kringum okkur, eins og t.d. Bandaríkin, fara þá leið. Þar í landi hefur ekki gengið betur en svo að halda dýrtíðinni í skefjum, að forsetinn hefur orðið að nota allt það einræðisvald, sem hann hefur á stríðstímum, til þess að taka fram fyrir hendur þingsins, svo að dýrtíðin fari ekki fram úr öllu hófi.

Ég vil að lokum segja það, að ég vona, að þessi frjálsa leið til þess að færa niður dýrtíðina megi bera árangur. En hins vegar vil ég segja það, að við höfum enga ástæðu til þess að vera bjartsýnir, um leið og við skiljum við þetta mál hér á Alþ., þar sem þing annarra þjóða hafa ekki reynzt fær um að stöðva dýrtíðina og forseti Bandaríkjanna hefur orðið að nota einræðisvald til þess að taka fram fyrir hendur löggjafarsamkundunnar. Það er þess vegna bezt fyrir okkur að sleppa alveg umr. um gerðardómsl. að sinni, á meðan frjálsa leiðin hefur ekki sýnt meiri árangur heldur en hún hefur gert.